141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

landslénið .is.

421. mál
[18:17]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi um landslénið .is og önnur íslensk höfuðlén í þriðja skipti. Frumvarpið var lagt fram á vorþingi 2011 og 2012 en náði ekki fram að ganga fyrir þinglok. Er frumvarpið nú lagt fram á ný en með nokkrum mjög mikilvægum breytingum. Vonast ég til að það fái viðhlítandi meðferð í umhverfis- og samgöngunefnd.

Meginmarkmiðið með frumvarpinu er að tryggja bæði gæði og framþróun á sviði lénaumsýslu með því að setja lagaramma um lénaskráningar á Íslandi. Lagarammanum er ætlað að stuðla að öryggi, skilvirkni og gagnsæi varðandi umsýslu með íslensk höfuðlén með hliðsjón af þjóðfélagslegu mikilvægi starfseminnar. Markmið frumvarpsins er fyrst og fremst að tryggja að um skráningu léna gildi skýrar reglur þar sem gætt er að hagsmunum almennings. Kveðið er á um að lén undir íslenskum höfuðlénum séu vistuð með öruggum hætti í samræmi við regluramma sem stuðlar að öruggri umsýslu og því fylgt eftir með almennu eftirliti, sem og að tilgangur laga um landslénið .is sé einnig að vernda vörumerkið Ísland enda hafi íslensk höfuðlén beina skírskotun til Íslands og ímyndar þess bæði út á við og inn á við í samfélagslegu samhengi.

Frumvarpið fastsetur ramma um stjórnun íslenskra landsléna sem hafa verið eða verður úthlutað til Íslands. Er þar fyrst og fremst átt við stjórnun landslénsins .is, en jafnframt er þó með frumvarpinu gert ráð fyrir möguleika á fleiri lénum. Í frumvarpinu er lagt til að lénaumsýsla sé frjáls hverjum þeim sem hana vill stunda, en sé þó háð starfsleyfi frá hinu opinbera og jafnframt verði sett öflugt eftirlit um starfsemina.

Kvaðir eru lagðar á starfsleyfishafa um að tryggja öryggi, stöðugleika og virkni starfseminnar og kveðið á um heimildir eftirlitsstofnunar til þess að grípa í umsýsluna ef öryggishagsmunir krefjast. Lögin kveða jafnframt á um umráða- og ráðstöfunarrétt íslenska ríkisins á landslénum sem tilheyra Íslandi, setja skýrar reglur á sviði lénaumsýslu og tryggja eftirlit á markaði. Enn fremur er lögbundinn sérstakur samráðsvettvangur um lénamál sem jafnframt skal vera ráðgefandi stjórnvöldum varðandi málefni internetsins í víðara samhengi.

Framþróun internetsins hefur verið drifin af samvinnu ólíkra aðila, stjórnvalda, tæknisérfræðinga og notenda internetsins svo að eitthvað sé nefnt. Telja má víst að með því að skapa vettvang á borð við þennan verði til mikilvægur samráðsvettvangur um hinar ýmsu hliðar internetsins og málefni því tengdu. Hingað til hafa ekki gilt nein lög á þessu sviði. Telja má bæði nauðsynlegt og eðlilegt að setja löggjöf á þessu sviði. Með frumvarpi þessu er lagður til lagarammi um lénaumsýslu á Íslandi. Þær breytingar eru fyrst og fremst til komnar vegna þess að hingað til hafa ekki gilt sérstakar reglur um stjórnun og skráningu léna og því hafa skapast nokkuð sérstakar aðstæður hér á landi sé tekið mið af alþjóðlegu samhengi. Er það afar fátítt að einkafyrirtæki fari með stjórnun landsléna. Umsýsla landslénsins .is var færð til einkaaðila í kjölfar einkavæðingarferlis árið 2000. Í flestum ríkjum sem Ísland ber sig gjarnan saman við er stjórnsýslu landsléna ríkjanna öðruvísi háttað hvað varðar rekstrarform þess aðila er annast skráningu léna undir landsléninu sem og réttarumhverfi þeirra.

Hlutverk stjórnvalda í lýðræðisþjóðfélögum er meðal annars að tryggja að innviðir samfélagsins séu með þeim hætti að þjóðfélagið starfi sem best. Í kjölfar hinnar miklu internetbyltingar sem orðið hefur er óhætt að segja að internetið geti talist til mikilvægra innviða samfélagsins. Þetta viðhorf hefur haft sívaxandi áhrif á stjórnhætti internetsins, enda hefur hlutverk stjórnvalda í stjórnsýslu landsléna stóraukist á síðustu missirum. Enn fremur er ljóst að til að löggjöf sem er sett til þess að vernda efni sem sett er á internetið eða þá sem nota internetið sé fullnægjandi þurfa heimildir stjórnvalda til að grípa inn í stjórnsýslu lénsheitakerfisins að vera skýrar.

Við undirbúning frumvarpsins var litið til ýmissa valkosta varðandi útfærslu umsýslu íslenskra höfuðléna. Litið var til laga í helstu nágrannaríkjum okkar, reglna Evrópusambandsins um höfuðlénið .eu auk þess sem frumvarpið tekur mið af leiðbeinandi reglum alþjóðlegs samráðsvettvangs stjórnvalda OECD og fræðirita.

Ákveðið var að skapa stafseminni umgjörð í samræmi við gildandi regluverk en líta til erlendra fyrirmynda í ljósi hinna séríslensku aðstæðna sem hér ríkja. Fjarskiptaregluverkið nýtist sem fyrirmynd og er hugmyndin sú að aðlaga megi þær meginreglur sem eiga almennt við um fjarskipti að lénaumsýslu að mörgu leyti. Þegar er fyrir hendi eftirlitsstofnun, Póst- og fjarskiptastofnun, og er gert ráð fyrir að reynsla stofnunarinnar verði nýtt við framkvæmd löggjafarinnar. Gert er ráð fyrir að innheimt verði sérstakt rekstrargjald af rekstraraðilum íslenskra höfuðléna sem standi straum af kostnaði við eftirlit Póst- og fjarskiptastofnunar. Með þeim úrræðum sem eftirlitsstofnunin hefur yfir að ráða er tryggt að grípa megi inn í starfsemina ef starfandi fyrirtæki stendur ekki við kvaðir sem lagðar hafa verið á það. Er talið að með því móti felist minnst inngrip í málefni lénamála umfram aðrar leiðir sem mögulegar eru, um leið og markmið með lagasetningu nást. Jafnframt er talið að með vísan til mikilvægis þess að trausti á og í starfseminni sé ekki stefnt í voða sé rétt að úthluta starfsleyfi til ISNIC í samræmi við bráðabirgðaákvæði laganna. Markmið laganna er ekki að gera stórvægilegar breytingar á rekstrargrundvelli þegar starfandi fyrirtækja heldur aðeins að setja reglur á markaði með því að setja lagaramma á sviði lénamála.

Þær breytingar sem gerðar hafa verið á frumvarpinu frá fyrri framlagningu felast fyrst og fremst í því að starfsleyfi skráningarstofu landslénsins .is er ekki tímabundið til fimm ára heldur ótímabundið. Þá hefur prósenta rekstrargjalds verið lækkuð úr 4,9% í 3,5% en reynt var eftir fremsta megni að draga úr umfangi eftirlits eins og kostur var auk þess sem tekið var tillit til minni umsýslu vegna breytinga á starfsleyfi og þá var litið til aukinnar veltu fyrirtækisins með auknum fjölda léna.

Líkt og fram hefur komið hafa engin sérlög gilt hingað til á þessu sviði hér á landi og af íslenskri löggjöf verður ekki ráðið að umsjón með landsléninu .is lúti öðrum reglum eða eftirliti en almennur atvinnurekstur. Með hliðsjón af mikilvægi starfseminnar í þjóðfélagslegu tilliti er æskilegt að starfsemi á borð við þessa lúti eftirliti til þess að tryggja sanngirni og jafnræði gagnvart borgurunum, notendum internetsins, um leið og sjónarmið um öryggi og almannaheill verði lögfest um starfsemina.

Hæstv. forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. umhverfis- og samgöngunefndar að lokinni umræðu hér í dag.