144. löggjafarþing — 65. fundur,  16. feb. 2015.

úthlutun byggðakvóta til ferðaþjónustuaðila.

[15:22]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég man þá tíð hér á síðasta kjörtímabili þegar verið var að ræða þessa úthlutun, og þann gríðarlega vöxt sem virtist stefna í innan þessarar greinar, að þetta væri talið of lítið sem þar bærist eða þetta takmarkaði möguleika fyrirtækja að stunda þessa starfsemi, ef ég man rétt. Síðan held ég að ég fari rétt með, en skal þá koma réttum upplýsingum til þingmannsins ef þær eru rangar, að það hafi ekki verið fullnýtt.

Varðandi ákvörðun sveitarfélagsins um úthlutun samkvæmt byggðareglunum — ef þær samrýmast lögum og reglum þá er ekkert hægt að setja út á það, þá eru það bara lög í landinu. Þó að ráðherra geti haft skoðanir á því hvort eðlilegt sé að einhver fyrirtæki sem sveitarfélagið telur eðlilegast að njóti þess byggðakvóta sem fellur til þess byggðarlags eður ei getur hann ekki, eftir því sem lögin segja, gripið inn í það. (Gripið fram í.)