146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

orð ráðherra í sérstakri umræðu.

[16:21]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég var nú að fylgjast með þessari umræðu hér niðri og trúði eiginlega varla mínum eigin eyrum, að verið væri að líkja málflutningi hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar við lundafléttuna úr Hauck & Aufhäuser-skýrslunni. Ég spyr mig nú bara: Hvurs lags er þetta? Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sendi mér og öðrum formönnum stjórnmálaflokkanna bréf eftir kosningar í október þar sem hann vildi að við kæmum okkur saman um bætt vinnubrögð á Alþingi. Ég tók undir efni þess bréfs en fannst betra að vinna að því eftir að þing kæmi saman. Eru það svona vinnubrögð sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra var að tala um? Ég held nú að hæstv. ráðherra væri maður að meiri ef hann kæmi hingað upp og bæðist afsökunar á þessum orðum sínum, frú forseti.