146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

kaup á nýjum krabbameinslyfjum.

472. mál
[18:46]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég vil aðeins byrja á að nefna varðandi lyfjaverðið að gengið ætti að hjálpa til í þeim efnum. Eins og ástandið var eftir hrun þegar ekki voru til fjármunir hjá Landspítalanum — það var reyndar líka fyrir hrun — þurfti hann að velja á milli þess að borga laun eða kaupa lyf. Núna erum við þar stödd að gengið ætti að auðvelda okkur þetta. Það sem skiptir mestu máli er að auðvelda Landspítalanum að taka þátt í útboðum á Norðurlöndunum með stóru spítölunum á Norðurlöndum.

Það er mjög erfitt að taka vilja ráðherra fyrir verkið. Nú er bráðum komið hálft ár og lyfin ekki komin. Engir peningar eru í höfn þótt forgangslistinn sé þarna einhvers staðar. Þetta minnir mig á hitt slæma atriðið í lyfjamálum, kvótann. Þegar peningar fyrir þessum lyfjum (Forseti hringir.) eru búnir fá ekki fleiri sjúklingar það lyf það árið. Þeir sem eru svo óheppnir að þurfa á því að halda seinni part árs fá það ekki. Nú gæti sú staða verið komin upp (Forseti hringir.) að þeir sem þurfa á krabbameinslyfjum að halda fyrri part árs fái þau ekki (Forseti hringir.) heldur hinir sem veikjast eftir mitt ár.

(Forseti (JÞÓ): Forseti minnir þingmenn á að virða ræðutíma. Metið er um 20 sekúndur fram yfir sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir sló núna.)