148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

dagskrá fundarins.

[11:01]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Ég man að eitt það fyrsta sem síðasta ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks gerði á sínum tíma var að lækka veiðileyfagjöld. Núna sýna Vinstri græn sitt rétta andlit og gera það sama. Vinstri græn gera nákvæmlega það sama og hæstv. heilbrigðisráðherra Svandís Svavarsdóttir gagnrýndi svo harðlega fyrir korteri síðan. Umturnast fólk algerlega við það að skipta um sæti í þessum þingsal? Hér er lækkun veiðileyfagjalds á atvinnuveg sem hefur stórgrætt undanfarin ár og svo mikið að fyrir nokkrum dögum gekk einstaklingur út úr greininni með 22 þús. millj. kr. fyrir nýtingu á sameiginlegri auðlind. Það er kjaftshögg fyrir íslenskan almenning.

Fyrirhuguð lækkun veiðileyfagjalds er upp á 3 milljarða. Fyrir þá upphæð mætti hækka barnabætur um 30%, eða næstum því tvöfalda fjárframlög ríkisins til hjálpartækja öryrkja. Er þetta virkilega erindi Vinstri grænna í ríkisstjórn? Barðist VG fyrir því að setja þessi mál (Forseti hringir.) á dagskrá, að lækka álögur á þá grein sem grætt hefur hvað mest í þessu samfélagi? Þetta er til skammar, herra forseti.