148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

dagskrá fundarins.

[11:08]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Mér þætti einmitt vænt um að herra forseti væri forseti okkar allra en ekki bara forseti meiri hlutans. Það mál sem hér er rætt varðandi veiðigjöld er ekki tækt til umræðu í þinginu, er engan veginn komið að því í röðinni og, eins og hv. þm. Birgir Ármannsson nefnir hér, þá eru hér þættir sem þarf að ræða. Heimild til gjaldtökunnar er að renna út á tíma, það er einfalt dagsetningarmál. Þessir flokkar hafa þverskallast við að endurskoða fyrirkomulag veiðigjalda árum saman og ætla nú þinginu að taka það til umræðu á nokkrum dögum, með sama hætti og þessir sömu flokkar standa hér að framlagningu frumvarps til laga um persónuvernd, gríðarlega umfangsmikið mál sem flokkarnir sjálfir hafa setið yfir mánuðum saman og ætla þinginu viku til að taka afstöðu til.

Þetta er algjört virðingarleysi fyrir þinginu, þetta er algjört virðingarleysi fyrir því hlutverki sem við höfum í þessum sal, að taka vandaðar, ígrundaðar ákvarðanir. Þetta er fúsk og þetta er til skammar.