148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

dagskrá fundarins.

[11:19]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Birgir Ármannsson kom inn á málefni velferðarnefndar. Honum fannst alveg frábær hugmynd hjá meiri hluta Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna að senda málið okkar í nefnd sem enginn veit um. Nefnd sem á að draga úr skerðingum atvinnutekna eldri borgara. Við vorum ekkert með þannig mál inni. Við vorum með hreint og klárt mál um að hætta öllum skerðingum á launatekjur eldri borgara og öryrkja. Það er allt annar hlutur. Við reyndum að fá málið til umræðu inni á þinginu. Ef málið á að fara í nefnd, þessa dularfullu nefnd sem enginn veit um, af hverju mátti þá ekki ræða málið í 2. umr. og senda það síðan til hennar ef það hefði verið samþykkt á þinginu? Hvað eru þeir að fela? Hvers vegna þora þeir ekki að hleypa þessu máli í gegn? Það er einfalt, það er vegna þess að þetta er ótrúlega hagkvæmt fyrir eldri borgarana og líka gífurlega hagkvæmt fyrir ríkissjóð.