148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

skortur á hjúkrunarfræðingum.

[11:49]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Það er rétt að þetta er verkefni sem sinna verður bæði í bráð og lengd. Ég vil taka sérstaklega til þess sem hv. þingmaður nefnir og lýtur að starfskjaraumhverfi. Hluti af viðfangsefni mínu og viðfangsefni heilbrigðisþjónustunnar, til viðbótar við að horfa til kjarasamninga þegar þeir eru til umfjöllunar, eru starfskjör í víðu samhengi, þ.e. starfsaðstæður og möguleikar til starfsþróunar og þess að þroskast og bæta við sig í starfi. Aukin áhersla á teymisvinnu í allri heilbrigðisþjónustunni þar sem sérþekkingu hjúkrunarfræðinga er lyft og þeirri sérþekkingu er til haga haldið. Það skiptir líka máli varðandi það að hafa gaman af því að fara í vinnuna og njóta vinnudagsins. Það er nokkuð sem við getum gert og eigum líka að horfa til.

Ég held kirfilega til haga í öllum mínum samskiptum við heilbrigðiskerfið að gæta að því að teymisvinna tryggi að sterk aðkoma allra fagstétta efli þá þjónustu sem við viljum sjá sem kemur til móts við mismunandi úrræði heilbrigðisþjónustunnar.