148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

biðlistar á Vog.

[13:10]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á þeim nótum sem ég endaði á síðast. Í ljósi þess að við erum að ræða hér alvarlegan heilbrigðisvanda, heilbrigðisvandamál sem snertir ótal marga á þessu landi, ætti þessi þjónusta ekki að vera stærri hluti af þeirri grunnþjónustu sem heilbrigðisráðuneytið hefur á sínu forræði?

Það efast enginn um SÁÁ og Vog og heilindi þeirra sem þar stjórna. Það hefur margoft komið fram að þar er unnið frábært starf. Hins vegar þýðir það ekki að við sem hér vinnum megum ekki spyrja þeirra spurninga sem snúa að hagsmunum aðila sem eru veikir, fólki í fíkniefnavanda.

Ég ætla að beina nokkrum spurningum til ráðherra. Þær koma svolítið í belg og biðu, en ég veit að hæstv. heilbrigðisráðherra velur þá bara úr.

Veit hæstv. heilbrigðisráðherra hvernig forgangsraðað er á biðlistann hjá Vogi?

Veit hæstv. heilbrigðisráðherra hversu margir á listanum hafa látist í hverjum mánuði fyrir sig?

Hvernig skiptast hlutföll kynjanna á listanum?

Hvernig er staða barna í þessu samhengi?

Hversu margir af þeim sem eiga sæti á listanum skila sér í meðferð að biðinni lokinni?

Er þjónustan nógu góð í erlendu samhengi?

Það er lítil sem engin fjölbreytni hér á Íslandi í meðferðarúrræðum fyrir fólk í fíkniefnavanda. Er hæstv. heilbrigðisráðherra með einhverjar hugmyndir um hvernig hún getur í krafti embættis síns aukið þann fjölbreytileika? (Forseti hringir.)

Er eitthvert eftirlit haft með meðferðarúrræðum sem standa Íslendingum til boða?

Að lokum vil ég þakka aftur fyrir umræðuna og segja að fólk á Íslandi sem á í alvarlegum fíkniefnavanda (Forseti hringir.) á sér allt of fáa málsvara í þessum sal. En ég vona svo sannarlega og innilega (Forseti hringir.) að þetta fólk eigi sér málsvara í hæstv. heilbrigðisráðherra.

(Forseti (JÞÓ): Forseti vill árétta við þingmenn að halda ræðutíma.)