148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

lengd þingfundar.

[15:47]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Við erum auðvitað að tala um pólitík að hluta. Það er ekkert við því að segja í sjálfu sér ef pólitík ríkisstjórnar Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar er sú að það sé forgangsmál að hygla útgerðum, stórum jafnt sem smáum, vel stöddum jafnt sem ver stöddum, á kostnað almennings. Hver fyrir sinn smekk. En vinnubrögðin, maður lifandi. Ég velti fyrir mér hvort þeir fáu stjórnarþingmenn sem hér eru, ráðherrar jafnvel, séu sáttir við þetta. Þá tala ég ekki síst til þeirra þingmanna sem gengu ekki fyrir svo mörgum mánuðum upp í pontu, svifu jafnvel í heilagleika sínum, til að messa yfir öðrum um það hvernig rétt og gott væri að standa að málum, hvernig siðferðið væri að bregðast í hinum og þessum málum og hvernig þeir myndu gera hlutina væru þeir við völd. Eru þessir þingmenn stjórnarinnar sáttir við þessi vinnubrögð? Eru þeir sáttir við að leggja með þessu drög að nýjum óskráðum reglum og venjum í störfum Alþingis Íslands?