148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

lengd þingfundar.

[16:06]
Horfa

Smári McCarthy (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Á dagskrá þingfundar í dag eru ellefu mál, þar af eru tvö búin. Af þeim níu sem eftir eru eru átta sem enginn ágreiningur hefur verið um að taka til meðferðar á þinginu í dag. Engu að síður erum við hér, mörgum klukkutímum eftir að þingfundur byrjaði, ekki enn komin lengra á leið vegna þess að því er haldið til streitu að koma fyrir máli sem ekki hefur fengið neina sátt. Það mál, veiðigjöld, snýst um að lækka veiðigjöld á allar útgerðir, sér í lagi á stórar útgerðir, meðal annars á HB Granda sem í dag greiddi út arð upp á 1.269.561 þús. kr. og reyndar 105 kr. til viðbótar. Það sýnir hversu mikið áríðandi þetta tiltekna mál er.

Það er alltaf þannig þegar fólk eyðileggur orðstír sinn, með því til dæmis að svíkja samninga, að þá verður hann ekki mjög auðveldlega endurheimtur. Það er ekkert sérstaklega mikilvægt fyrir mig persónulega að hjálpa þeim (Forseti hringir.) sem hafa eyðilagt orðstír sinn og sýnt að þeir geti ekki (Forseti hringir.) staðið við samninga að koma málum sínum á dagskrá þegar þau eru svona slöpp.