148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

lengd þingfundar.

[16:33]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Hæstv. forseti hefur ekki orðið við áskorun minni um að staðfesta að samkomulagið frá því fyrir þinghlé sé í gildi og að staðið verði við þau fyrirheit sem þá voru gefin. Ég leyfi mér að ítreka óskir mínar til hæstv. forseta í þessu efni, að hann gefi út slíka staðfestingu. Ég tel ekki eftir mér að starfa hér að þjóðnýtum málum á hvaða tíma sólarhrings sem er. En ég sé enga ástæðu til þess að greiða fyrir ríkisstjórninni í því að koma fram forgangsröðun af því tagi sem hún boðar þegar málum í þágu þeirra sem höllum fæti standa í íslensku samfélagi er haldið í gíslingu í nefndum til þess að geta komið fram stórfelldum peningagjöfum í garð þeirra sem best standa. Ég get ekki staðið að því, ég segi nei.