148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

Afbrigði um dagskrármál.

[16:47]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það á að vera undantekning að hleypa málum á dagskrá þegar frestur er liðinn, þess vegna er frestur bundinn í þingsköp. Frestur á ekki að vera þarna sem einhvers konar gluggaskraut sem ríkisstjórnin hunsar eftir hentisemi.

Skoðum aðeins forsögu málsins.

Í fjárlögum 2018 kom fram að veiðigjöld áttu að skila 10 milljörðum í þjóðarbúið, en fjárlög voru samþykkt í lok desember 2017. Í byrjun apríl kom fram fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, of seint eins og núna. Þar kom fram að veiðigjöld ársins 2018 yrðu 7 milljarðar. Því fylgir skýring þess efnis að lög um veiðigjöld myndu falla úr gildi í lok árs. Slíkt stenst auðvitað enga skoðun þar sem greiðsla veiðigjalda 2018 er fyrir áramót 2018/2019.

Getur verið að ríkisstjórnin hafi hlaupið á sig, lofað lækkun veiðigjalda án þess að átta sig á því að slíkt stæðist ekki lög? Og þegar upp komst um klúðrið, enn eitt klúðrið, hafi verið ákveðið að reyna að þvinga í gegnum þingið skítamixi til að redda málum? Er það það sem er í gangi hér?