148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

um fundarstjórn.

[17:19]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé talar um að við hefðum átt að greiða fyrir atkvæðagreiðslu um mál sem við vildum ekki sjá á dagskrá vegna þess að það væri einhverra hluta vegna voðalega málefnalegt af okkur. Það hefði líka verið frekar málefnalegt, vitandi að það þyrfti þrjá fimmtu hluta atkvæða til að fá þetta í gegn, að verða einfaldlega við ósk minni hlutans um að taka þetta mál af dagskrá. Getum við ekki bara aðeins talað saman hérna, talað um hvernig staðan er, komist að þeirri niðurstöðu að þetta sé ekki vinnandi vegur og haldið svo bara áfram? Nei, það er ekki þannig. Það þurfti að gera hlé á þingfundi, funda með forseta, halda áfram með fundarstjórn forseta vegna þess að það var enginn vilji til þess að greiða fyrir málum, ræða málin, í raun ganga frá því sem var gefin niðurstaða fyrir fram. Um það snýst þessi fundarstjórn. Við höfum fullan rétt á að gagnrýna fundarstjórn forseta án þess að fá einhverjar miður skemmtilegar ávirðingar frá stjórnarþingmönnum um hvað við séum nú ómálefnaleg.