148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

um fundarstjórn.

[17:27]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Forseti talar hér um að hafa sent þingflokksformönnum tölvupóst og það er rétt. Það sem forseti nefnir hins vegar ekki er að við svöruðum þeim tölvupósti. Sú sem hér stendur sagði: Það er okkar skilningur, eða minn skilningur og okkar í Samfylkingunni, að veiðigjöldin fari ekki á dagskrá nema öll nefndin sé á málinu. Undir það tóku fleiri þingflokksformenn. Það er ekki hægt að tala um samráð þegar tilkynningar eru sendar í tölvupósti og svör koma við þeim og ekkert kemur til baka annað en það næsta sem maður sér að málin eru komin á dagskrá.

Dagskrárvaldið er ekki í höndum forseta þegar um er að ræða mál sem eru allt of seint fram komin. Þá er dagskrárvaldið í höndum þingsins. En auðvitað kjósum við öll (Forseti hringir.) að við náum samkomulagi um þessa hluti og þurfum ekki að standa í stappi, eins og við þurftum að gera hér í dag, til þess að koma fólki í skilning um að málið færi ekki á dagskrá í dag.