151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

um fundarstjórn.

[13:17]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf):

Herra forseti. Það er alvarlegt ef vegið er að aðhaldshlutverki þingmanna sem hljóta að hafa svigrúm til að greina frá sjónarmiðum sem fram koma á nefndarfundum um grafalvarleg málefni sem eiga sannarlega erindi við almenning. Auðvitað þarf að ríkja trúnaður um það sem sagt er á nefndarfundum Alþingis og orð gesta, en ásakanir um að formaður velferðarnefndar hafi brotið þingsköp vegna þess að hún segir frá því að fram hafi komið á fundi velferðarnefndar að hluti sveitarfélaga landsins væri að nýta fé sem á að renna til reksturs hjúkrunarheimila í eitthvað allt annað en það — það eru upplýsingar sem eiga sannarlega erindi við almenning. Við sem sinnum eftirlitshlutverki með fjárheimildum og höfum fjárheimildavaldið hér á þingi hljótum að vilja vekja athygli á þeirri staðreynd.

Herra forseti. Við þingmenn eigum að halda trúnað en það má heldur ekki ýkja eða afbaka þingsköpin (Forseti hringir.) í þeim tilgangi að taka athyglina frá því stóra alvarlega máli og stöðu sem ríkir í málefnum (Forseti hringir.) hjúkrunarheimila og þyrla hér upp ryki um trúnað og leka innan úr nefnd.