151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

um fundarstjórn.

[13:20]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég ætla ekki að tala um tiltekin tilvik enda á ég ekki sæti í hv. velferðarnefnd og veit ekki nákvæmlega hvað fram fór þar. Ég vil hins vegar árétta að það er skýrt tekið fram í 19. gr. þingskapa að ekki eigi að vitna beint eða óbeint til gesta með það sem fram kemur á lokuðum fundi. Það eru mismunandi fundir haldnir hér í þinginu, sumir eru lokaðir, það eru hinir venjulegu nefndafundir, síðan eru fundir sem eru opnir fjölmiðlum og opnir fundir. Menn geta verið þeirrar skoðunar að mál séu þess eðlis að þörf sé á að halda opna nefndafundi. Þá fer það eftir ákveðnum reglum og er beðið um að það sé þá gert með þeim hætti. Mér vitanlega hefur það gengið tiltölulega greitt hér í þinginu að menn geti fengið opna fundi um slík mál.

Annað sem ég vildi nefna er að þingmenn geta auðvitað að hagnýtt sér upplýsingar sem fram koma á lokuðum nefndarfundum með því að kalla þær fram með einhverjum öðrum hætti hér í þingsal, með fyrirspurnum, óundirbúnum eða undirbúnum eða hvaðeina. (Forseti hringir.) Það er ekki verið að setja lok á einhvern pott. Það er bara verið að vísa til þess að þegar menn tjá sig á nefndarfundum eiga menn að geta gert það án þess að í það sé vitnað.