151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

um fundarstjórn.

[13:30]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Formaður velferðarnefndar valdi að segja frá með sínum hætti fréttum af því sem fram fór á nefndarfundi. Ég veit ekki hvort sú lýsing sem hún gaf í sjónvarpsviðtali er sú sem aðrir nefndarmenn hefðu gefið. Það er allsendis óvíst og raunar finnst mér það ólíklegt. En í því liggur málið, að það liggur nánast fyrir, eins og hv. formaður nefndarinnar veit, í hvern hún var að vitna á fundinum. Það þarf ekkert að vera með einhvern svip undrunar í því efni af því að formaðurinn veit nákvæmlega hverjir koma á fundinn og hún veit nákvæmlega hverjir kynnu að hafa gefið upplýsingar eins og hún vitnaði um.

Varðandi það sem formaðurinn nefndi með fregnir af uppsögnum 140 starfsmanna veit formaður velferðarnefndar það vel, og sennilega flestir í þessum sal, að þessir starfsmenn verða endurráðnir á sömu stofnanir (HVH: Nei.) við flutninga á verkefnum til ríkisins. Þetta veit formaðurinn og (HVH: Þetta er rangt.) það er í besta falli ómaklegt að halda öðru fram.