151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

tilraunir til þöggunar.

[13:49]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Það var áhugaverð orðskýring hjá hv. þm. Birgi Ármannssyni áðan, að hann væri ekki að fetta fingur út í það að hér hefði verið brotinn hinn hátíðlegi trúnaður í merkingu þingskapalaga, heldur einhver eðlilegur trúnaður um það sem fram fer á fundum. Þingið starfar eftir þingskapalögum, ekki eftir einhverri hentitúlkun á orðum sem fer eftir því hvernig stjórnarliðum líður, að þeir þurfi að sparka í stjórnarandstöðu. Hér þarf forseti að gera upp við sig hvort hann ætlar að standa með þinginu í þessari atlögu stjórnarliða gegn eftirliti í tveimur nefndum síðustu vikuna, eða hvort hann ætlar að leyfa þeim að draga okkur út í þennan skurð þar sem einhver hentistefna ræður því hvað má og má ekki segja um störf þingsins. Það getur ekki verið staða sem forseti alls Alþingis er sáttur við. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)