151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

fsp. 5.

[14:26]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er náttúrlega ótrúleg niðurstaða hjá hv. þingmanni að ráðherrann hafi ekki sjálfur brotið af sér heldur einhver annar í kerfinu. Ráðherrann er embættið. Ég ætla ekki að fara út í þetta mál sem hv. þingmaður vill rifja upp að kom upp í fjármálaráðherratíð minni. Að sjálfsögðu tók ég sjálfur ábyrgð á því máli, jafnvel þótt úrskurðarnefndin í því máli hafi aldrei haft fyrir því að hafa samband, leita sjónarmiða þess sem tók ákvörðunina, tók einmitt viðtölin og hafði skoðun á því hvers vegna skipunin varð eins og hún var. Það var aldrei leitað eftir sjónarmiðum þess sem tók ákvörðunina.

En það sem hv. þingmaður hefur ekki áttað sig á er að menntamálaráðherra er að fara að lögum. Það sem skilur á milli máls hennar og Jóhönnu Sigurðardóttur er að menntamálaráðherra fer eftir lagaákvæðinu og lætur reyna á það fyrir dómstólum hvort úrskurðurinn standi eða ekki. Ég verð að segja almennt um þessa umræðu að mér þykir vera mikill tvískinnungsháttur í þinginu (Forseti hringir.) þegar við semjum lög um að ráðherra skuli höfða mál vilji hann hnekkja úrskurði. En þegar ráðherra gerir það (Forseti hringir.) tala menn um það sem eitthvert almennt hneyksli.