151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

svör ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[14:39]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Forseti. Ég vil taka undir það sem aðrir hv. þingmenn hafa sagt um þetta mál. Þetta er vandamál. Óundirbúinn fyrirspurnatími er mjög mikilvægur vettvangur fyrir okkur til þess að geta kallað eftir upplýsingum og skýrum svörum frá ráðherranum og ég er farin að sjá rauðan þráð í gegnum umræðuna. Þetta er eins og með þá umræðu sem átti sér stað undir fundarstjórn hérna áðan, að það er alltaf reynt að færa athyglina frá því sem er mál málanna, sem þarf að ræða, sem þarf að svara og horfast í augu við, yfir á eitthvað annað, yfir á: Við höfum gert þetta, í staðinn fyrir að svara eiginlegri, málefnalegri spurningu sem fyrir ráðherra er lögð. Ég vil líka lýsa yfir vonbrigðum mínum gagnvart því að forseti alls þingsins skuli ekki setja sig upp á móti þeim þöggunartilburðum sem við ræddum áðan í fyrri fundarstjórn.