151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

vera Íslands í Atlantshafsbandalaginu.

[14:48]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Ég ætla byrja á því að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir að taka svona ljúfmannlega í beiðni mína um umræðu. Við sem höfum verið andsnúin veru okkar í hernaðarbandalaginu NATO höfum gjarnan viljað ræða þessi mál hér í þingsal.

Á Ísland að vera aðili að Atlantshafsbandalaginu? Það er spurning sem við höfum spurt okkur frá því að þáverandi ríkisstjórn ákvað að Ísland yrði stofnaðili að NATO árið 1949. Sjálfstætt lýðveldi var ekki orðið fimm ára gamalt þegar ákveðið var að gefa eftir hluta af sjálfstæðinu og ganga í hernaðarbandalag. Og ekki var þjóðin spurð, enda mótmælti hún og valdhafar þurftu að beita táragasi gegn henni með stuðningi hvítliða.

En er þetta ekki bara sagnfræði? Af hverju er ég að rifja þetta upp hér? Inngangan er kannski sagnfræði en við erum enn í NATO. Við erum enn aðili að hernaðarbandalagi og berum ábyrgð á öllum verkum þess, árásum á önnur ríki, á Balkanskaga, Afganistan, Líbíu, fólki á flótta eftir þær árásir. Við berum ábyrgð á þessu öllu því að við erum í NATO. Ég ætla ekki að dæma fólk sem í klakaböndum kalda stríðsins ákvað að nauðsynlegt væri að Ísland tæki afstöðu með öðrum aðilanum í deilu sem skipti heiminum í tvennt. Ég er ósammála þeim sem það gerðu en ég ætla ekki að draga forsendur þeirra efa. Ég ætla hins vegar að draga forsendur þeirra í efa sem telja sig ekki þurfa að taka afstöðu til veru okkar í NATO í dag, sem meta stöðuna í dag eftir úreltum gildum kalda stríðsins, sem horfast ekki í augu við það að NATO hefur gjörbreyst. Það snýst ekkert um það eitt að verja þjóðir fyrir árásum, það hikar ekki við að fremja árásir sjálft. Og Ísland með því að við erum í NATO.

Forseti. Hverjar eru helstu ógnirnar sem að okkur steðja í dag? Ætlar einhver að halda því fram að þær séu þær sömu og voru árið 1949, í kalda stríðinu? Nei, það sér hver maður að svo er ekki. Helstu ógnirnar sem að okkur steðja mæta okkur á hverjum degi. Þær birtast í grímunni sem við berum vegna heimsfaraldursins. Þær birtast í öfgum í veðurfari vegna loftslagsbreytinga sem valda skriðum og snjóalögum sem allt lama. Þær birtast í breyttum fiskigöngum, í súrnun sjávar, í hamfarahlýnun. Þær birtast í netárásum sem geta lamað heilu samfélögin, í upplýsingaóreiðu sem getur grafið undan lýðræðislegri skipan. Um þetta snýst þjóðaröryggi okkar. En við erum föst í viðjum kaldastríðshugsunar og eyðum stærstum hluta þjóðaröryggisstefnu okkar í þá staðreynd að við erum í árásarbandalaginu NATO og notum það meira að segja sem afsökun til að taka ekki þátt í starfi sem gerir heiminn augljóslega að betri stað, eins og sáttmála Sameinuðu þjóðanna um bann gegn kjarnorkuvopnum. Við segjum að við getum ekki tekið þátt í honum vegna veru okkar í NATO.

Nú, hættum þá í NATO.

Loftslags- og mengunarmál eru mun mikilvægari en NATO. Og forseti. Herir og hergagnaframleiðsla menga, auka á loftslagsvandann. Ísland á að taka forystu í baráttunni gegn stríði, hergagnaframleiðslu og tilheyrandi mengun, gegn hernaði. Það gerum við ekki með því að vera í hernaðarbandalagi. En ráðast Rússar ekki bara á okkur? heyri ég næstum einhvern spyrja. Tja, ekki ráðist þeir endilega á önnur lönd sem standa utan hernaðarbandalaga, eða höfum við séð rússneskt herlið á Írlandi?

Forseti. Þann 30. mars 1949 var táragasi beitt hér fyrir utan vegna inngöngu Íslands í NATO. Krafa fólksins þá á síðustu metrunum var: Berið þetta undir okkur. Spyrjið þjóðina. Það var ákallið á mótmælafundinum. Því miður var ekki hlustað á þjóðina þá.

En við getum í dag sýnt að við séum fær um að laga okkur að gjörbreyttum heimi. Hættum að elta úrelta hugmyndafræði kalda stríðsins. Verum leiðandi á heimsvísu í þágu friðar og mannúðar, í baráttunni gegn loftslagsvánni. Hættum að vera í NATO. Ísland úr NATO, herinn burt!