151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

vera Íslands í Atlantshafsbandalaginu.

[15:09]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Heimurinn stendur frammi fyrir margs konar ógnum. Eigum við að nefna heimsfaraldra sjúkdóma og loftslagsvá eða fátækt sem augljósustu dæmin? Þetta verður ekki tekist á við með hernaði og vopnum, hvort sem er innan eða utan hernaðarbandalaga, sérstaklega ekki innan. Eigum við að tala um ólýsanlegar hörmungar íbúa og fordómalausan straum flóttamanna til Evrópu vegna stríðsátaka sem hafa verið undir formerkjum NATO eða Bandaríkjanna í Miðausturlöndum? NATO er þar gerandinn en ekki lausnin. Kjarnorkuvopn eru grunnstoð í hernaðarstefnu NATO. Bandalagið útilokar ekki beitingu þeirra að fyrra bragði og enn sem komið er hefur ekkert aðildarríki NATO treyst sér til þess að gerast aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna um að banna kjarnorkuvopn. Borgaraleg þátttaka í aðgerðum NATO eru orðin tóm þegar við erum að tala um hernaðarbandalag sem vill beita kjarnorkuvopnum. Ísland tilheyrir litlum hópi herlausra ríkja veraldar og við eigum að nota okkur það til þess að láta gott af okkur leiða og miðla málum í deilum annarra og vera þannig virkir aðilar í lausn á flóknum úrlausnarefnum.

Frumskylda stjórnvalda er að tryggja öryggi þjóðar. Herstöð er skotmark, var haft á orði hér á árum áður og þau orð eiga svo sannarlega enn við í dag. Við þurfum að þora að skapa okkur sjálfstæða utanríkisstefnu. Við þurfum að skapa okkur utanríkisstefnu sem skiptir máli í því umhverfi sem heimurinn er staddur í dag. (Forseti hringir.) Við eigum að segja okkur úr NATO.