151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

vera Íslands í Atlantshafsbandalaginu.

[15:23]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég vil minna á að NATO er varnarbandalag í grunninn þannig að ég sé kannski ekki stóra vandamálið fyrir utan þá spurningu sem við þurfum að velta upp, hvort við ættum þá að yfirgefa vinaþjóðir okkar, meira að segja líka þær sem standa utan við bandalagið en hafa verið að styrkja tengsl sín og dýpka við NATO eins og Svíar og Finnar hafa gert á umliðnum misserum. Ég vil taka undir það sem hefur verið sagt hér áður að vissulega eru ógnir aðrar, allt aðrar en þegar við samþykktum það 1949 að verða meðlimir að varnarbandalaginu — loftslagsmálin, upplýsingaóreiða og netöryggi. En allt eru þetta mál, nýjar ógnir, sem undirstrika mikilvægi þess að við Íslendingar tökum þátt í fjölþjóðasamstarfi sem aldrei fyrr. Auðvitað eru líka ógnir út frá löndum með öðrum hætti en áður. Við upplifðum á sínum tíma Sovétríkin með hernaðarlega yfirburði en í dag stöndum við frammi fyrir ríki sem hefur bæði hernaðarlega en ekki síður efnahagslega yfirburði og fer þar fyrir utan gegn bæði lýðræði og frelsi í ofanálag. Þannig að ógnirnar milli ríkja og ríkjabandalaga eru með öðrum hætti.

Hv. málshefjandi, hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé, hefur ítrekað flutt frumvarp um að flytja ákvarðanir um varnarliðsframkvæmdir frá ráðherra til Alþingis. Ég vil segja um það mál að mér finnst það áhugavert og í góðu samræmi, að mínu mati, við opnari og lýðræðislegri umræðu um svo mikilvæg mál, t.d. þegar verið er að flytja eða setja af stað varnarliðsframkvæmdir. Ég held að þetta sé eitthvað sem við eigum að fara að dýpra ofan í. Þegar hann flutti málið fyrst sagði hann m.a. að það væri mikilvægasta mál VG. Ég vil því spyrja: Er það svo? Hvernig hefur honum gengið að fá samstarfsflokkana til liðs við sig í þessu mikilvæga máli að hans mati? Og ég vil líka í lokin spyrja hann: Er hann tilbúinn til að mynda meiri hluta með öðrum flokkum fyrir kosningar til að málið sem slíkt fái framgang? Er hann reiðubúinn í það?