151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

vera Íslands í Atlantshafsbandalaginu.

[15:28]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég tel hana vera þarfa og góða. Ég vil hins vegar nota tækifærið og leiðrétta ákveðna hluti hérna eða koma ákveðnum sjónarmiðum áleiðis. Stóra málið er að ef menn vilja ekki vera í NATO þá hlýtur maður náttúrlega að spyrja: Hver er valkosturinn? Hér voru nefndir Írar. Þeir eru með mjög stóran her, og allar þær þjóðir sem ekki eru í NATO eru auðvitað með her. Ég vísaði hér til afstöðu þeirra norsku stjórnmálaflokka sem ekki vilja vera í NATO. Þeir vilja samt styrkja hervarnir Noregs.

Síðan varðandi bann við kjarnavopnum. Það er engin þjóð með kjarnavopn sem er aðili að þessum samningi. Að þjóðir afsali sér vörnum sínum einhliða er fyrst og fremst eitthvað sem einræðisríki, sem ekkert okkar vill bera okkur saman við, myndu fagna. Þau munu ekki afsala sér neinum kjarnorkuvopnum, Norður-Kórea eða önnur slík ríki. Kjarnorkuafvopnun hefur verið mjög mikil frá dögum kalda stríðsins. Hún hefur verið gagnkvæm.

Það er náttúrlega ekki rétt að við höfum staðið í vegi fyrir nauðsynlegum framkvæmdum. Og það er ekki rétt hjá þeim hv. þingmanni sem fór yfir aukninguna að það sé verið að breyta hlutverkum í einhver ný verkefni. Af hverju halda menn að þessi kafbátaleit sé? Það er vegna þess að þetta eru kafbátar. Þannig er það og það er ekki nýtt hlutverk.

Þetta tal varðandi Finnafjörð, ég veit ekki hvaða orð má hafa um það. Það á sér enga stoð í raunveruleikanum. Ég hvet hv. þingmenn sem ætla að ræða þau mál að gera það út frá staðreyndum en ekki að vera að búa til eitthvað sem á sér enga stoð í raunveruleikanum.

Virðulegi forseti. Ég vil annars þakka hv. þingmanni sem á upphafið að þessum umræðum. Það liggur alveg fyrir að við erum ósammála í mörgum málum, Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri grænir, og það hefur ekkert lagast. En við náðum saman um stjórnarsáttmála eins og allir þekkja.