151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

mótun klasastefnu.

522. mál
[16:27]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna og þakka skýrslu hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um mótun klasastefnu, klasastefnu sem unnin er í framhaldi af samþykkt þingsályktunartillögu sem flutt var af hv. þm. Willum Þór Þórssyni ásamt fleirum.

Klasasamstarf er víða liður í nýsköpun og atvinnuuppbyggingu og eflir samkeppnishæfni fyrirtækja, atvinnugreina, landsvæða og þjóða. Klasar geta verið drifkraftur nýsköpunar. Þar tengjast ólíkir aðilar og til verða nýjar hugmyndir. Opinber klasastefna getur því verið liður í að uppfylla framtíðarsýn og stefnu stjórnvalda um sjálfbæra atvinnuuppbyggingu, samkeppnishæfni og almenna hagsæld. Í skýrslunni er farið yfir hverju klasasamstarf geti náð fram. Í framhaldinu vænti ég þess að fá skýra sýn eða aðgerðaáætlun um hvernig stjórnvöld geti hvatt til klasasamstarfs eða stutt við það. Bent er á að stuðningur við klasasamstarf geti verið tæki í eflingu byggðaþróunar og að þar hafi hið opinbera hlutverki að gegna við að brúa markaðsbrest og styrkja innviði og vistkerfi nýsköpunar um allt land. Það er einmitt það sem fulltrúar landshluta hafa kallað eftir síðustu mánuði samhliða allsherjarendurskoðun opinbers stuðnings við nýsköpun.

Hæstv. ráðherra. Innleiðing klasastefnu getur styrkt innviði og vistkerfi nýsköpunar um land allt.

Virðulegi forseti. Nú þegar eru stafrænar smiðjur, ýmiss konar samvinnuhúsnæði og tengslanet starfrækt um land allt. Oft þarf lítinn viðbótarkvóta til að virkja drifkraftinn þar. Dæmi um það er að forsenda notkunar á stafrænum smiðju er að til staðar séu starfsmenn með góða þekkingu á búnaðinum sem hafi tíma til að fylgjast með og þróa vinnuaðferðir í samstarfi við aðrar smiðjur og atvinnulífið. Því er fagnaðarefni að nú hafi opinberir aðilar tryggt verkefnastjórn sem leiðir tæknilega þróun smiðjanna og samstarf næstu árin. Það verður spennandi að sjá fleira úr stefnunni skila sér.