151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

mótun klasastefnu.

522. mál
[16:42]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér klasastefnu. Það er ekki nýyrði en aðalatriðið er að innihald sé á bak við klasastefnuna. Það er mjög mikilvægt að opinberir aðilar móti stefnu til langrar framtíðar um hvernig þeir vilja sjá nýsköpun þróast í landinu. Við vitum að hagnýt staðbundin þekking auðgar atvinnulífið. Við þekkjum það. Í gegnum tíðina hefur aukin áhersla verið lögð á nýtingu í sjávarútvegi og ýmsum öðrum greinum með sjálfbærum hætti. Það hafa orðið til klasar á þeim grundvelli í samvinnu við rannsóknaraðila, háskóla, einstaklinga og stjórnvöld. Það er því mikilvægt að brúa bil á milli ólíkra aðila í atvinnulífinu sem eykur þekkingarsköpun innan mismunandi atvinnugreina og á milli þeirra. Ætlunin með slíku samstarfi er m.a. að byggja upp atvinnulíf og auka verðmætasköpun á hverju svæði með sérstakri áherslu á sjálfbærni og grænar lausnir og nýsköpun og hátækni. Þetta er allt í gerjun hér á Íslandi en opinberir aðilar þurfa líka að vera leiðandi í þessari vinnu.

Nú hefur í fyrsta sinn verið lögð fram klasastefna eins og lagt var upp með í stjórnarsáttmálanum. Þessi klasastefna hefur verið unnin í samstarfi við fjölda aðila og tengir vel nýsköpunarstefnu og stefnu Vísinda- og tækniráðs. Þetta klasasamstarf fellur vel að markmiðum um byggðaþróun og nýtingu staðbundinnar þekkingar. Klasar hafa verið að myndast víða um land og það má aðlaga þá að aðstæðum á hverju svæði.

Ég held að þeir klasar sem hafa verið að fara af stað, bæði varðandi sjávarklasa, ferðaþjónustu og jarðvarma, séu dæmi um gott gengi í þeim efnum. Orkídea á Suðurlandi, sem er samstarf Landsvirkjunar, Samtaka sveitarfélaga á Suðurlandi, Landbúnaðarháskóla Íslands og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, er gott dæmi um gott nýsköpunarverkefni í orkutengdum geirum og í hátæknimatvælaframleiðslu.

Svo er það Eimur sem er samstarfsverkefni Landsvirkjunar, Norðurorku, Orkuveitu Húsavíkur, Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunarfélaga á Norðurlandi eystra. Það samstarf er til að bæta nýtingu á orkuauðlindum á því landsvæði. Bæði þessi verkefni falla vel að hugmyndinni um hringrásarhagkerfið, um minni sóun og sjálfbæra nýtingu auðlinda, og kröfum samtímans um vistvænni og sjálfbærari framtíð.

Klasasamstarf er vel til þess fallið að auka aðgengi að þekkingu, hvort sem er með sterku neti klasa innan lands eða í tengslum við alþjóðlega klasa sem opna dyr að alþjóðlegu rannsóknarstarfi og samstarfi á því sviði. Þau verkefni sem ég nefndi eiga það sameiginlegt að að þeim standa opinberir aðilar sem treystir einmitt það hlutverk sem þeim er ætlað í stefnunni, að verja gegn markaðsbrestum og styrkja innviði og vistkerfi nýsköpunar í landinu. Það á við um heim allan að framfarir séu fjármagnaðar af opinberu fé. Opinberir aðilar verða að hafa þolgæði og festu til að standa með grænni framtíð og nýjum lausnum til framtíðar. Ég held að ekki megi vanmeta mikilvægi þess að ríkið og opinberir aðilar séu mótandi í þeirri stefnu sem við ætlum að byggja upp á sjálfbæran hátt til framtíðar í nýsköpun í landinu, þjóðinni til heilla.