151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

mótun klasastefnu.

522. mál
[16:46]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Sá er hér stendur er með mikið þakklæti í huga. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir skýrsluna og hrósa fyrir að hún skili sér innan gefins tímaramma. Það hefur oft gleymst, það er ekki alltaf sem það gerist. Mér finnst þessi umræða merkilega góð. Það er tvennt sem er áberandi í henni, annars vegar hlutverk ríkisins og hins vegar útfærslan. Þar eru einmitt gæðin við þessa skýrslu að hún geymir nákvæmlega það sem þingsályktunartillagan mælir fyrir um, sýn og stefnu, ekki er verið að þvæla inn framkvæmdaþættinum.

Mér fannst hæstv. ráðherra í inngangi að skýrslunni sýna því skilning og það finnst mér mikilvægast. Þetta er áfangi á vegferð. Það þarf þrautseigju og þolinmæði til að koma þessari vinnu áfram. Mikil kortlagning og greiningarvinna þarf að fara fram. Ég kannast við það. Það þarf þrautseigju og þolinmæði. Ég lagði þingsályktunartillöguna fram fimm sinnum hér frá 144. löggjafarþingi, í fyrsta sinn árið 2014, en síðan eru sjö ár. Það var svo loks fyrir sléttu ári, korteri fyrir Covid, getum við sagt, að tillagan var samþykkt á Alþingi þann 12. mars, með fulltingi flutningsmanna úr öllum þingflokkum sem sæti eiga á Alþingi. Það má kannski segja „ekki seinna vænna“ þar sem heimurinn er vonandi á hraðri leið út úr Covid og inn í nýtt, grænna, stafrænna, skapandi hagkerfi þar sem nýsköpun og klasasamvinna getur skipt sköpum og opinber klasastefna getur orðið lykilstoð í allri nýsköpun. Þeim áfanga sem við ræðum í þessari skýrslu þarf að fylgja vel eftir og eins og í allri stefnumótun er það stefna, sýn, markmið og svo framkvæmdaáætlun sem þarf að fylgja og eftirfylgni við það. Það er stöðugt verk.

Ég ætla að koma hér að hlutverki hins opinbera og stjórnvalda, vegna þess að við erum hér með klasana, sem komið er inn á í skýrslunni, í ákveðnu þroskaferli og við erum eftir á í því þroskaferli ef við berum okkur saman við aðrar þjóðir. Það er það sem ég þarf að koma á framfæri og hefur komið fram í umræðunni hér: Hvernig eigum við að nýta þær stoðir sem þó er búið að byggja upp til að styðja við klasa sem eru sjálfsprottnir? Þá sögu þekkjum við frá Evrópu og þeim þjóðum sem eru komnar lengra. Það er kannski mikilvægast þegar við horfum til þróunar klasa í heiminum að við þurfum að horfast í augu við og viðurkenna að á sviði nýsköpunar þarf að formgera samvinnu hins opinbera og atvinnulífsins og byggja þannig upp tækifærin. Klasar hafa löngu sannað gildi sitt sem öflugasta tækið til að auka samkeppnishæfni og atvinnuuppbyggingu millistórra og smærri fyrirtækja og það er einmitt lykilstoðin og markmiðin í Evrópusambandsríkjunum; framleiðni, hagvöxtur og klasar. Klasar virka sem drif og hraðall á alla nýsköpun.

Atvinnulífið hefur auðvitað fyrir löngu komið auga á það tækifæri sem klasar gefa og eru. Það hefur verið að flækjast fyrir okkur, hinu opinbera og stjórnvöldum, hversu nauðsynlegt og mikilvægt er að hið opinbera og atvinnulífið vinni saman með það tæki sem klasi er og sæki margfeldisáhrifin sem af þeirri samvinnu geta orðið. Þetta er þekkt tregða á mörgum sviðum og í báðar áttir. Tregða sem var víða í árdaga formlegra klasa hjá þjóðum sem hafa áttað sig á þessu, hafa þegar stigið skrefið, hafa þegar mótað opinbera klasastefnu. Þetta er allt tekið ágætlega saman í skýrslunni, það er vel, án þess að gera það í löngu máli. Það er mikilvægt. Við höfum ekki endilega alltaf athygli. Athygli okkar helst ekki yfir langar, moðkenndar skýrslur sem geyma fjölmörg hugtök, og mörg hugtakanna hér eru vissulega framandi.

Nú þarf að fara í þá vinnu að ramma inn þær hugmyndir sem settar eru fram í skýrslunni og kortleggja betur og útfæra sýnina og kortleggja betur klasaumhverfið og möguleikana. Þá þarf að skipuleggja og formgera aðkomu og aðgengi stuðningsumhverfisins, hvaða aðilar og fyrirliggjandi sjóðakerfi myndi það umhverfi og með hvaða hætti. Við slíka kortlagningu myndi ég leggja áherslu á að tvinna byggðaáætlun og sóknaráætlanir landshluta og þverfaglega nálgun með öðrum ráðuneytum, eins og þekkist annars staðar.

Hér má líka draga fram að hæstv. ráðherra hefur staðið fyrir fjölmörgum góðum verkefnum. Ég get nefnt hér nýleg verkefni eins og Kríu og Stuðnings-Kríu, Græna dregilinn og Græna iðngarða, allt fellur það mjög vel að þessu umhverfi og ber að hrósa fyrir það.

Nú er tíminn búinn. Ég gæti staðið hér miklu lengur, en ég tel að vinnan á bak við skýrsluna sé líka góð, hvernig var farið í þá vinnu. (Forseti hringir.) Ég vil þakka starfshópnum sem vann fyrir hæstv. ráðherra að skýrslunni fyrir þessar vinnustofur, samráð og starfshópa og hvetja hæstv. ráðherra til að halda áfram að taka nýsköpunina föstum tökum eins og hún hefur gert hingað til.