151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018.

585. mál
[18:31]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Hér verður mælt fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018.

Frumvarpið er samið í mennta- og menningarmálaráðuneyti í nánu samstarfi við stofnanir sem heyra undir ráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og persónuverndarfulltrúa Stjórnarráðsins.

Frumvarpið er samið til samræmis við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, sem tóku gildi hér á landi 15. júlí 2018. Í gildandi lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga eru gerðar auknar kröfur til ábyrgðar- og vinnsluaðila um skýrar heimildir til vinnslu persónuupplýsinga. Í ýmsum lögum sem heyra undir málefnasvið mennta- og menningarmálaráðuneytis sem stofnanir ráðuneytisins vinna eftir er gert ráð fyrir vinnslu almennra og viðkvæmra persónuupplýsinga og í einhverjum tilvikum án þess að gert hafi verið ráð fyrir skýrum lagaheimildum til slíkrar vinnslu í samræmi við auknar kröfur persónuverndarlöggjafar. Með frumvarpinu er leitast við að styrkja vinnsluheimildir til vinnslu persónuupplýsinga fyrir stofnanir sem heyra undir mennta- og menningarmálaráðuneyti.

Frumvarpið hefur ekki áhrif á þjónustu sem hlutaðeigandi stofnun veitir einstaklingum heldur er með frumvarpinu verið að árétta réttindi skráðra einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga um þá. Málefnasvið mennta- og menningarmálaráðuneytis nær til fjölbreyttrar starfsemi, þar á meðal háskóla, vísindarannsókna, fræðslumála, námsaðstoðar, safnamála, lista og menningar, fjölmiðla og íþrótta- og æskulýðsmála.

Nauðsynlegt er að styrkja lagagrundvöll fyrir heimild til vinnslu persónuupplýsinga í ýmsum lögum er lúta að framangreindri starfsemi. Ekki verða allar efnislegar breytingar taldar hér upp sem gerðar eru á ýmsum lögum. Um er að ræða breytingu á lögum um leikskóla, nr. 90/2008, lögum um grunnskóla, nr. 91/2008, lögum um framhaldsskóla, nr. 92/2008, lögum um Menntamálastofnun, nr. 91/2015, lögum um opinberan stuðning til vísindarannsókna, nr. 3/2003, íþróttalögum, nr. 64/1998, bókasafnalögum, nr. 150/2012, lögum um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, nr. 129/1990, lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011, og lögum um háskóla, nr. 63/2006.

Margir lagabálkar á málefnasviðum ráðuneytisins fela í sér lögbundna þjónustu menntastofnana við börn og ungmenni, þar á meðal lög um leikskóla, lög um grunnskóla og lög um framhaldsskóla og lög um háskóla. Mikilvægt er að lagastoð fyrir vinnslu persónuupplýsinga á þessu sviði sé skýr og að heimild til vinnslu persónuupplýsinga grundvallist á lagaheimild en ekki samþykki. Við vinnslu frumvarpsins var að auki horft til þess að afnema hindranir í skólakerfinu með því að veita þeim stofnunum og aðilum sem veita börnum lögbundna þjónustu heimildir til vinnslu nauðsynlegra persónuupplýsinga, en samhliða því að réttindi einstaklinga séu tryggð.

Frumvarpið felur ekki í sér breytingar á þjónustu við einstaklinga sem eiga í hlut eða aukið umfang stofnanna. Eingöngu er verið að styrkja þann lagagrundvöll sem fyrir er svo viðkomandi stofnanir geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu þegar kemur að vinnslu persónuupplýsinga, sérstaklega vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga. Auk þess er verið að tryggja betur réttindi einstaklinga vegna vinnslu persónuupplýsinga þannig að hún samrýmist persónuverndarlöggjöfinni. Frumvarpið ætti því ekki að hafa áhrif á hagsmuni almennings að öðru leyti eða aðra hagsmunaaðila.

Frumvarpsdrögin birtust til samráðs í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum 3. til 16. nóvember 2020 þar sem kallað var eftir umsóknum. Þrjár umsagnir bárust frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar og ein frá einstaklingi.

Þar sem ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið muni hafa í för með sér frekari fjárhagsáhrif en það frumvarp sem varð að lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, ætti enginn viðbótarkostnaður að falla á þá opinberu aðila sem frumvarpið snertir umfram það sem varð með gildistöku framangreindra laga.

Með frumvarpinu eru gerðar viðeigandi breytingar á lögum sem heyra undir málefnasvið mennta- og menningarmálaráðuneytis þannig að ákvæði er kveða á um vinnslu persónuupplýsinga í hinum ýmsu lögum samrýmist lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, samanber reglugerð (ESB) 2016/679.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efni frumvarpsins og legg til að málinu verði vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar að lokinni þessari umræðu og gangi til 2. umr.