Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 65. fundur,  20. feb. 2023.

íþrótta- og æskulýðsstarf.

597. mál
[17:46]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Fyrri spurningin laut að persónuverndarákvæðum og hugsunin á bak við þetta frumvarp voru m.a. að vinna persónuverndarþáttinn betur og það sem lýtur að því, eins og athugasemdir sem bárust fjölluðu um. Hins vegar spurði þingmaðurinn hvort samskiptaráðgjafi aðstoðaði við að koma málum í réttan farveg þegar mál væru þess eðlis vegna þess að auðvitað eru málin sem þarna berast fjölbreytt og ólík. Já, samskiptaráðgjafi vinnur bæði með lögreglu og með barnavernd að því að vísa málum í réttan farveg og sérstaklega mikið með barnavernd vegna þess að þegar þessi mál koma upp þá varða þau oft og tíðum börn vegna þess að langstærstur hluti þeirra sem þarna eru er undir 18 ára aldri. Varðandi tölfræðina sem hv. þingmaður kemur inn á þá gefur samskiptaráðgjafi árlega út skýrslu. Það er hluti af starfsemi embættisins og auðvitað er þetta ekki gamalt embætti, það er þriggja ára gamalt. Ráðgjafinn gefur árlega út skýrslu þar sem farið er yfir helstu tölfræði og hún er birt á heimasíðu og ég held að hún hafi verið birt á heimasíðu ráðuneytisins líka. En kannski má gera betur í þessu og ég hvet líka hv. þingmann og þá sem munu fjalla um málið í allsherjar- og menntamálanefnd, ég mun koma þeim skilaboðum áfram til samskiptaráðgjafa, að gera það einnig í starfi nefndarinnar. Þetta eru allt góðar ábendingar og sérstaklega þessi seinasta og við munum koma því áfram. Ég treysti líka hv. allsherjar- og menntamálanefnd til að ræða þetta þegar hún fær samskiptaráðgjafa til sín við vinnslu málsins fyrir 2. umr.