Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 65. fundur,  20. feb. 2023.

íþrótta- og æskulýðsstarf.

597. mál
[17:49]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Forseti. Hér er mikilvægt frumvarp sem hæstv. mennta- og barnamálaráðherra er að leggja fram. Ég hef reynt að leggja það í vana minn að ræða aðeins um þau 1. umr. mál sem ég veit að fara ekki inn í nefndirnar sem ég sit í. Þó að ég sé í ansi mörgum nefndum þá er ég ekki í allsherjar- og menntamálanefnd. En það er því miður einfaldlega þannig að komið hafa upp mörg mál í tengslum við íþrótta- og æskulýðsstarf, hvort sem það er hér á landi eða erlendis, þar sem aðilar hafa verið að nýta sér aðstöðu sína til þess að brjóta á börnum. Er þá skemmst að segja frá skátahreyfingunni í Bandaríkjunum sem kom því miður skelfilega út í því sambandi, en hún er sem betur fer aðeins öðruvísi uppbyggð hérna heima þannig að vonandi erum við ekki að horfa upp á annað eins. En það er mikilvægt að við tökum á öllum þessum tilkynningum, hvort sem þær eru um kynferðislega áreitni, einelti eða aðra óæskilega hegðun, og að við finnum leiðir til þess að draga úr þessu, að við setjum fjármagn í forvarnir. Ég hvet hæstv. ráðherra til þess að vera óhræddur við að biðja um fjármagn og ef hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra er ekki tilbúinn að bæta því inn í lögin, að koma þá til þingsins því að við viljum öll vernda börnin okkar fyrir hvers konar hlutum sem geta gerst. Það er mjög mikilvægt að við vinnum þar saman og ég hvet allsherjar- og menntamálanefnd til að taka þetta frumvarp til góðrar skoðunar. Ég veit að það er mikið að gera í þeirri hv. nefnd en þetta er mikilvægt mál þannig að við vonum að það verði tekið fyrir sem fyrst.