Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 65. fundur,  20. feb. 2023.

hafnalög.

712. mál
[17:59]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og spurningarnar. Það er rétt að við erum búin að koma okkur af stað í þessa innviðauppbyggingu. Hún getur verið umtalsverð og kostnaðarsöm. Oft tengist þetta flutningsnetinu og uppbyggingu þar. Það er líka verið að gera þetta ágætlega í einstaka uppbyggingu á nýjum höfnum, samanber á Dalvík þar sem það hefur gengið vel og er reyndar fyrirhugað víðar. Þessi lög munu ekki ná til íslenskra fiskiskipa á næstu árum heldur er verið að horfa meira á alþjóðlegu skipin, þ.e. skemmtiferðaskipin og flutningaskipin. En þar sem við höfum getað beitt okkur hefur náðst ágætur árangur í að rafvæða hafnir þannig að fiskiskip eru tengd rafmagni á meðan þau liggja í höfn. En stóru áskoranirnar, eins og hv. þingmaður kom inn á, liggja í því að koma á háspennutengingum, sem eru margfalt dýrari en hefðbundnar tengingar sem fiskiskipin nota. Við höfum verið að styðja við þetta í gegnum orkuskipti og innviðasjóði. Við þurfum að gera meira af því og ég veit til þess að hafnasamlögin hafa litið svo á að þarna liggi þeirra stærstu fjárfestingar. En það að láta þau líka fara inn í þetta umhverfi, að mega beita fjárhagslegum hvötum, mun hjálpa þeim að ýta skipunum yfir í umhverfisvænni tengingar og að fá þá auknar tekjur af hinum sem gera það ekki.