131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Aðgerðir til að draga úr offitu barna.

326. mál
[13:41]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að taka upp það mikilvæga mál sem er holdarfar barna. Það er auðheyrt á svörum ráðherra að mikið starf er í gangi varðandi þetta vandamál sem er að stóraukast og mun á komandi árum hafa vaxandi sýnilegar afleiðingar í samfélagi okkar. En það er skoðun mín að það sé mjög mikilvægt að menntamálayfirvöld og heilbrigðisyfirvöld taki höndum saman í þessu efni því að börn og unglingar verja stórum hluta dagsins í skólanum framan af ævi og þar þarf að miðla til þeirra upplýsingum og reka harðan áróður og kenna þeim mikilvægi hreyfingar fyrir lífið í bráð og lengd.