132. löggjafarþing — 65. fundur,  13. feb. 2006.

Tæki stjórnvalda til að stuðla að lækkun matvælaverðs á Íslandi.

[15:46]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Undanfarin missiri hefur Samfylkingin með hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur verið í fararbroddi í umræðu um lækkun matvælaverðs á Íslandi. Samfylkingin hefur ítrekað kallað eftir skýrslum um málið og lagt fram þingmál á Alþingi sem lúta að lækkun matvælaverðs. Stjórnarflokkarnir hafa hins vegar fellt þær tillögur. Samfylkingin hefur sömuleiðis ítrekað lagt fram tillögur um að efla Samkeppniseftirlitið en stjórnarflokkarnir hafa sömuleiðis fellt þær tillögur.

Kjarni málsins er að lækkun matvælaverðs hefur ekki verið forgangsmál Sjálfstæðisflokksins eða Framsóknarflokksins. Þessir flokkar hafa fengið næg tækifæri til að lækka matvælaverðið en þeir hafa beinlínis kosið gegn slíkum tillögum. Eina útspil ríkisstjórnarinnar í þessu máli er að skipa nefnd til að kanna matvælaverðið. Það virðist hafa farið fram hjá stjórnarherrunum að fjölmargar nefndir hafa skilað tillögum undanfarin missiri um leiðir til að lækka matvælaverð. Það þarf bara að framkvæma þær. Þessar leiðir virðast því öllum ljósar nema ríkisstjórnarflokkunum sem nú vilja setja vandamálið í nefnd.

Tekjuöflun ríkissjóðs vegna matvæla með tollum og vörugjöldum á matvæli ásamt skattlagningu matvæla í 14% þrep í stað 7% eykur álögur á almenning vegna matvælakaupa um 11 milljarða kr. Þessi forgangsröðun ríkisstjórnarflokkanna hækkar því matarreikning íslenskra fjölskyldna um 160 þús. kr. á ári. Það er ekki náttúrulögmál að hafa eitt hæsta matvælaverð í heimi á Íslandi en ríkisstjórnin hefur margs konar leiðir til að lækka matarreikning landsmanna. Ef ríkisstjórnin hefur raunverulegan áhuga á því að stuðla að lægra matvælaverði ætti hún að endurskoða vörugjöld og tolla og helst afnema með öllu, lækka virðisaukaskatt af matvælum eins og Samfylkingin hefur ítrekað lagt til hér á þingi, auka samkeppniseftirlit en ekki greiða atkvæði gegn fjárveitingum til þess eins og ríkisstjórnarflokkarnir hafa gert og síðan eigum við að draga úr innflutningshömlum.

Frú forseti. Ríkisstjórnin hefur hins vegar valið aðra (Forseti hringir.) leið. Hún skipaði nefnd.