132. löggjafarþing — 65. fundur,  13. feb. 2006.

Tæki stjórnvalda til að stuðla að lækkun matvælaverðs á Íslandi.

[15:58]
Hlusta

Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Birgir Ármannsson nefndi það úr ræðustól áðan að hann furðaði sig á því að Samfylkingin væri ekki hrifin af nefndarskipan þar sem við værum svo mikið fyrir samræðustjórnmál. En markmiðið með samræðustjórnmálum hjá Samfylkingunni er að ná niðurstöðu og láta verkin tala eftir að hafa talað saman. Það er það sem við höfum verið að gera á undanförnum vikum og mánuðum. Hvað varðar þær niðurstöður, þær fjölmörgu niðurstöður, sem hafa fengist úr nefndarstarfi undanfarin ár um matvælaverðið. Við höfum lagt vinnu í að útfæra tillögur okkar til úrbóta. Þannig er það með samræðustjórnmálin en hv. þingmenn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins hafa aldrei komist á það stig að láta verkin tala í þessum málum.

Það er alveg hárrétt sem kom hér fram hjá hv. málshefjanda, og ég þakka henni innilega fyrir að taka þetta upp hér á þingi, að það er enginn, eins og hv. frummælandi nefndi það, stikkfrí þegar um er að ræða verð á matvörum. Stjórnvaldsákvarðanir skipta hins vegar verulegu máli og við höfum skýrslur til að byggja á. Við höfum skýrslur frá Hagfræðistofnun og við höfum núna skýrslu sem Samkeppniseftirlitið vann og skilaði 15. desember eins og hæstv. forsætisráðherra nefndi áðan. Það var samnorrænt verkefni. Af hverju? Vegna þess að Norðurlöndin öll eru með hærra matvöruverð en gerist hjá öðrum Evrópuþjóðum. Það er kominn tími til að taka á því og þá er skipaður samstarfshópur sem nær sameiginlegri niðurstöðu. Hvað á að gera við þessar niðurstöður? Setja þær í nefnd, eina nefndina enn, þegar við getum tekið á tollum, vörugjöldum og virðisaukaskattinum? Við getum eflt Samkeppniseftirlitið svo að samþjöppun á markaði verði ekki eins mikil og hún er. Það er staðreynd að hún er ekki bara í smásölunni, heldur líka hjá þeim sem sjá um innkaupin. Við verðum að efla eftirlitið og láta verkin tala.