132. löggjafarþing — 65. fundur,  13. feb. 2006.

Ríkisendurskoðun.

60. mál
[18:19]
Hlusta

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta mál á það sammerkt með mörgum góðum málum að það er búið að flytja það hér áður, þetta er eitthvað sem við megum lifa með varðandi þingmannamál og við sem hér erum inni þekkjum vel að það tekur svolítinn tíma að koma þeim í gegn.

En þetta, virðulegi forseti, er frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 86/1997 um Ríkisendurskoðun. Sá sem hér stendur er flutningsmaður ásamt hv. þm. Birgi Ármannssyni, Bjarna Benediktssyni, Sigurði Kára Kristjánssyni og Gunnari Örlygssyni.

Í örstuttu máli felst þetta mál, því það þarf ekki að hafa mörg orð um það, í að við erum með prýðisstofnun sem heitir Ríkisendurskoðun sem hefur sinnt mörgum góðum verkefnum og gert það vel. Það er hins vegar svo að fyrir utan að sinna því sem við getum kallað svona innri endurskoðun, þ.e. að taka alls konar úttektir og skoða mál frá stofnunum og fyrirtækjum ríkisins, þá í ofanálag hefur hún séð um endurskoðun reikninga ýmissa stofnana á vegum hins opinbera. Það má færa full rök fyrir því að þetta fari ekki alltaf saman. Í það minnsta er það algjörlega ljóst, og klippt og skorið, að þetta getur auðveldlega verið á höndum þessara hefðbundnu endurskoðunarstofa sem eru víðs vegar um landið og við eigum prýðis endurskoðendur og starfsfólk í þeim fyrirtækjum sem geta auðveldlega sinnt þessum verkefnum.

Það er nú bara einfaldlega lífsskoðun mín að ég tel að hið opinbera eigi að gera lítið og eigi að gera það vel, en ekki margt og illa. Nú er ég ekki að halda fram að þessi ágæta stofnun Ríkisendurskoðun hafi gert neitt illa og þetta er engin gagnrýni á hana. En það er algjörlega augljóst að það er mjög auðvelt að vera með þessa þjónustu úti á markaðnum, bjóða hana út og leyfa þessum ágætu fyrirtækjum sem starfa þar að keppa um þessi verkefni og slík samkeppni er ekkert annað en góðar fréttir fyrir okkur skattgreiðendur.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki hafa þetta neitt lengra, ég vil leggja til þegar þessari umræðu er lokið að þessu ágæta máli verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar til nánari umfjöllunar.