132. löggjafarþing — 65. fundur,  13. feb. 2006.

Djúpborun á Íslandi.

61. mál
[18:35]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Þetta er áhugavert og athyglisvert mál sem hv. Mörður Árnason hefur hér talað fyrir. Það hefur vakið athygli okkar þingmanna sem höfum fylgst með á þessu orkusviði hvernig þessum rannsóknum hefur undið fram. Það er eðlilegt að fólk horfi með svolítilli eftirvæntingu til þessa verkefnis, sérstaklega ef það verður til þess, eins og hv. þingmaður gat um, að færa okkur mögulega nær viðunandi málamiðlun eða lausn á orkunýtingu okkar með tilliti til náttúruverndarsjónarmiða.

Hins vegar velti ég fyrir mér ýmsum þáttum í þessu. Ég geri mér sjálf ekki fulla grein fyrir því hvernig verkefni þetta skarast eða kemur við rammaáætlun ríkisstjórnarinnar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Ég geri mér ekki grein fyrir því hvernig þetta verkefni fléttast inn í þær athuganir sem gerðar eru í því verkefni og minni á sleifarlag það sem hæstv. iðnaðarráðherra hefur gerst sek um varðandi þá áætlun alla. En innan hennar er einmitt gert ráð fyrir að möguleikar okkar í jarðvarmanum verði kannaðir til hlítar. Þau plögg sem þegar hafa verið gefin út af hálfu verkefnisstjórnar rammaáætlunarinnar sýna svo ekki verður um deilt að veruleg umhverfisáhrif eru af vinnslu orku með jarðvarma þó svo að þau séu önnur og annars konar en þau umhverfisáhrif sem verða vegna orkuvinnslu í vatnsaflinu. Við hverja holu sem boruð er eru búin til gríðarlega stór borplön. Lagðir eru vegir, alltaf uppbyggðir vegir, inn á svæðin vegna þess að tækin sem til þarf eru það þung að þau þurfa sterkbyggða vegi.

Nú geri ég mér grein fyrir því líka að gert er ráð fyrir því að að þetta tiltekna djúpborunarverkefni sem um ræðir í tillögunni sé unnið á þremur stöðum sem þegar er búið að raska, þ.e. Reykjanesi, Hengilssvæðinu og Kröflu. Í sjálfu sér geri ég því ekki ráð fyrir að umhverfisáhrif af þessu tiltekna verkefni verði meiri en þegar er búið að valda á þeim svæðum. Hér tel ég því að ekki séu í hættu nein ný svæði.

Hins vegar spyr ég sjálfa mig alltaf og æ oftar þegar orkunýtingu og orkuvinnslu á Íslandi ber á góma: Til hvers ætlum við Íslendingar að nýta alla þessa orku og hvernig sjáum við fyrir okkur að sú gríðarlega orka sem ýmsir vísindamenn gera sér vonir um að sé fólgin í iðrum jarðar og geti mögulega verið vinnanleg, og þetta djúpborunarverkefni geti mögulega leitt í ljós, verði á endanum nýtt? Mér finnst skipta verulegu máli að við horfum heildstætt á þetta. Við höfum gagnrýnt t.d. þá sem sækja sjóinn fyrir að fara fyrirhyggjulaust til veiða. Við viljum hafa fyrirhyggju í öllum athöfnum okkar sem mögulega geta skaðað náttúruna. Ég held að fyrirhyggjan sem við þurfum að hafa í orkuvinnslumálum hljóti að vera af því taginu að við förum ekki út í að vinna hér gríðarlegt magn orku ef markaður okkar þarf ekki á því að halda að koma þessari orku í lóg.

Nú sé ég ekki fyrir mér að það geti verið fýsilegt að afla þessarar gríðarlegu orku sem mögulega er fólgin þarna í iðrum jarðar til þess að reisa iðjuver fyrir þungaiðnað á borð við þær mengandi álbræðslur sem hæstv. iðnaðarráðherra er að bjóða heim í hvern fjörð. Ég vona að hv. þingmaður sé mér sammála um að það skipti máli í hvað orkan verði nýtt. Ég skilyrði því stuðning minn við málið við það að við förum inn á veg sjálfbærrar orkustefnu fremur en nokkuð annað og að sú orka sem unnin verði í landinu verði fyrst og síðast unnin til þess að koma í veg fyrir að Íslendingar þurfi framar að nota jarðefnaeldsneyti, kol og olíu. Ef við förum í þetta verkefni til þess að tryggja næga orku til að búa til allt það vetni sem við ætlum að nota til að keyra fiskiskipaflotann okkar og allan bílaflotann — sem við ætlum náttúrlega að minnka mjög mikið á næstu árum — þá horfir málið öðruvísi við fyrir mér. Fyrirhyggjan þarf sannarlega að vera hér til staðar og það að horfa á hlutina heildstætt og til enda.

Í tilefni orða hv. þingmanns um afkomendur okkar væntanlega sem ættu sennilega eftir að klóra sér í kollinum yfir syndum okkar feðranna í orkuvinnslumálum þá held ég nú að jafnvel þó að ekki verði komin niðurstaða úr þessu djúpborunarverkefni þegar afkomendur okkar hv. þingmanns verða komnir á legg þá tel ég að þeir muni hugsa okkur þegjandi þörfina fyrir Kárahnjúkavirkjun með Hálslóni og aðrar virkjanir og jökulón og lón sem búin eru að eyðileggja náttúruverðmæti, eins og ég segi, óháð því hvort djúpborunarverkefnið verður þá til enda unnið.

Ég sýni þessu máli fullan skilning eins og hv. þingmaður óskaði eftir. Ég vona að aðrir þingmenn og þá sérstaklega stjórnarliðar eigi líka eftir að sýna þessu máli skilning og að það eigi eftir að fá framgang í nefndinni sem um það kemur til með að fjalla, því að ég tel þetta mál vera allrar athygli vert.