138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:44]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við erum nýbúin að samþykkja fjárlög með auknum sköttum og gífurlegum niðurskurði upp á 100 milljarða kr. samanlagt. (Gripið fram í.) Við erum hér að samþykkja samning sem þýðir að við þurfum að auka halla þessa árs, ársins 2009, um 100 milljarða kr., 45 milljarðar kr. eru vegna vaxta og 55 milljarðar kr. vegna gengisfalls. Við erum sem sagt núna að tvöfalda hallann á ríkissjóði, og hvað halda menn að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn muni segja hæstv. fjármálaráðherra að skera mikið niður á næsta ári þegar búið er að samþykkja þetta? Það verður meiri niðurskurður, meiri skattar, meiri brottflutningur. Þetta er stórhættulegt mál. Ég minni á það að 100 milljarðar kr. eru tvö háskólasjúkrahús sem við erum búin að vandræðast með í 20 ár að byggja. Það ætlum við að greiða (Forseti hringir.) á einu ári.