139. löggjafarþing — 65. fundur,  26. jan. 2011.

umgengni um nytjastofna sjávar.

203. mál
[14:49]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir að búið sé að leggja þetta mál fram. Það gerir það vonandi að verkum að Fiskistofa muni frekar fá þær upplýsingar sem hún þarf til að geta unnið vinnu sína.

Ég hafði í hyggju að spyrja hv. þm. Atla Gíslason spurningar sem varðar vigtun. Er eitthvað annað sem þingmaðurinn telur að þurfi að endurskoða varðandi það hvernig staðið er að vigtun fiskafla í dag? Af samtölum við starfsmenn fiskmarkaða hef ég heyrt að þeir treysti sér til að taka að sér að vigta allan afla, hvort sem verið væri að landa í eigin vinnslur eða ekki. Þá byggðu þeir á því að ekki þyrfti að vigta hvert einasta kar, heldur væri hægt að nota ákveðna tölfræði til að meta hlutina. Þetta skiptir mjög miklu máli því að allir sem hafa starfað í fiskvinnslu gera sér grein fyrir því að það hversu mikill ís er í ísprufunum á fiskinum getur skipt mjög miklu máli um það hversu mikið er af fiski í körunum eða ekki. Var þetta eitthvað rætt eða hvaða skoðun hefur þingmaðurinn á því að fiskmarkaðurinn tæki að sér að vigta allan afla sem kemur í land?