139. löggjafarþing — 65. fundur,  26. jan. 2011.

tekjuskattur.

275. mál
[17:21]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Hér fer fram ágæt umræða um sjómannaafslátt og er ekki seinna vænna þar sem hæstv. ríkisstjórn ætlar að afnema það fyrirbæri. Þetta hefði gjarnan mátt ræða meira þegar það var ákveðið en þá var svo margt undir í einu eins og oft áður og umræðan datt niður. Þetta er nefnilega mjög mikilvæg umræða. Því miður er hún ótrúlega vanstillt og ég er alveg hissa á því hvað menn eru vanstilltir, talandi fyrir hönd sjómanna, því að þeir sjómenn sem ég þekki eru sko ekkert vanstilltir. Þeir eru yfirleitt mjög rólegir í tíðinni og kunna að bregðast við af æðruleysi, líka í umræðum.

Þetta er skattamál og fer til efnahags- og skattanefndar og í henni sit ég. Þar mun ég planta þeim hugmyndum sem ég hef reifað sem eru út úr boxinu að mínu mati en menn virðast hugsa dálítið mikið í boxinu. Hv. þm. Árni Johnsen hefur núið mér um nasir reynsluleysi og skort á verkviti. Svo vill til að á námsárunum vann ég mikið í síldarverksmiðjum en ég átti aldrei möguleika á því að fara um borð í skip að vinna, sem ég gjarnan hefði viljað vegna þess að ég hafði mikinn áhuga á því og launin voru betri. En ég þekkti engan útgerðarmann og þeir hefðu aldrei hleypt mér um borð. Ég gat því ekki aflað mér þeirrar reynslu sem hv. þingmaður var að væna mig um skort á. Ég fór þó einn túr með Heimaey, það má geta þess, frú forseti. Það var afskaplega ánægjuleg reynsla. Við lentum reyndar í brælu og tíu, tólf vindstigum held ég og það þótti mér afskaplega skemmtilegt. Ég kunni vel við mig um borð og í brælunni sem ég gat um vildi svo til að allir lögðust í koju nema ég og kokkurinn. Hann eldaði og ég borðaði. Það var afskaplega ánægjulegt. Ég stýrði líka skipinu vegna þess að vanhöld voru mikil á fólki. Aðra reynslu en þessa ferð hef ég ekki en ég á lífeyrisréttindi hjá Lífeyrissjóði Vestmannaeyinga í minningu hennar. Svo ég get ekki sagt að ég hafi mikla reynslu af sjómennsku, langt í frá.

Sjómannaafsláttinn má líta á sem styrk til útgerðar, hann er það. Útgerðin gæti alveg hækkað laun sjómanna um það sem nemur sjómannaafslættinum og þau stæðu eins eftir. Á Íslandi hefur mönnum orðið mjög tíðrætt um hin góðu laun sjómanna. Vissulega eru góð laun sjómanna til og þau ber alltaf mjög hátt. En menn tala síður um gæftaleysi, menn tala síður um það þegar menn berja báruna í endalausu gæftaleysi og ekkert gefur og enga pöddu neins staðar að finna og menn fá bara tryggingu, menn tala ekki um það. Og vinnan er ekkert minni, hún er oft á tíðum miklu meiri, það er alltaf verið að kasta og alltaf verið að hífa og ekki padda í sjó. Það má því ekki tala um sjómenn sem alla eins, þeir eru það langt í frá.

Svo segir það sig náttúrlega sjálft að sjómenn eru ekki jafnsettir öðrum borgurum landsins. Þeir skreppa ekki í bíó þegar góð mynd er í bíó. Þeir skreppa ekki til vina sinna í kaffi. Þeir skreppa heldur ekki á krá eða út að ganga eða hlaupa. Þeir færu nú ekki mikið að æfa tíu kílómetra hlaup nema þá á bretti sem er ekkert sérstaklega skemmtilegt og hvað þá í veltingi. Þetta er yfirleitt erfið vinna, aðgerð er mjög erfið, sérstaklega á þorski minnir mig, ég á óljósar minningar um það. Það var mikill munur á þorski og ufsa, ég man nú ekki hvort var, ufsinn steinlá alltaf en þorskurinn ekki, hann djöflaðist, sérstaklega stórþorskur. Svo er náttúrlega heilmikið átak að stíga veltinginn.

Það er því ekki hægt að segja að þessi stétt manna sé eins og aðrar stéttir. En þannig er það í þjóðfélaginu, til eru stéttir eins og læknar og aðrir sem lenda í alls konar aðstæðum. Læknar þurfa að mæta hlutum sem við viljum kannski ekki mæta, kannski ekki oft en það kemur fyrir, o.s.frv. Stéttir eru allar mismunandi.

Það sem ég hef lagt til í gegnum tíðina er að afnema sjómannaafsláttinn vegna jafnræðis stétta. Hér er nefnilega, eins og hv. þm. Kristján Þór Júlíusson sagði áðan, ein stétt manna tekin út fyrir. Það er akkúrat málið. Í skattalögum er ein stétt manna tekin út fyrir, ein stétt sem nýtur sérkjara. Hún er ekki jafnsett öðrum stéttum í landinu. Forsetinn var skattfrjáls áður en búið er afnema sérkjör hans og maka hans, að mínu frumkvæði, og eftir sitja eins og ég gat um áðan í andsvari sendimenn alþjóðlegra stofnana og ríkja, annarra ríkja sem njóta skattfríðinda. Þeir njóta hins vegar að sjálfsögðu velferðarkerfisins og fá heilbrigðisþjónustu, þeir keyra líka eftir vegunum o.s.frv. en þeir borga ekki fyrir það. Það er nokkuð sem ég vildi gjarnan að menn reyndu að breyta.

Ég hef bent á að til að laga þetta eigum við að sjálfsögðu að taka upp jafnræði og afnema sjómannaafsláttinn, eins og ríkisstjórnin hefur lagt til, en taka upp dagpeninga til sjómanna með nákvæmlega sömu rökum og aðrir fá dagpeninga. Til þess þurfa sjómenn að borga kostnað og um borð er kostnaður fyrir hendi. Það er t.d. kostnaður við húsnæði, menn búa um borð þá daga sem þeir eru á sjó, nákvæmlega eins og þegar þingmenn skreppa til útlanda og búa á hótelum. Sjómenn búa í káetum sínum og þær kosta. Mér finnst að útgerðin geti hækkað laun sjómanna, þeir borgi sjálfir þennan kostnað og fái síðan dagpeninga á móti.

Ég nefndi matinn áðan og þá var sagt að ég hefði verið að tala um lúxusmat og eitthvað svoleiðis. Ég talaði ekkert um það. Ég sagði að þetta væri dýr matur vegna þess að kokkurinn er á hlut, á flestum fiskiskipum að minnsta kosti. Á því eina skipi sem ég fór á var kokkurinn afskaplega röskur í aðgerð. Um leið og hann var búinn að vaska upp var hann mættur. Þannig held ég að það sé yfirleitt, menn eru mjög duglegir og samhentir um borð. En engu að síður, maturinn kostar sitt og kokkurinn kostar sitt fyrir útgerðina. Útgerðin borgar nefnilega kokkinn. Mér finnst að fæðiskostnað eigi bara að setja í reikning til sjómanna og sjómennirnir geti dregið hann frá með dagpeningum. Þeir eiga að fá dagpeninga fyrir fæðiskostnaði rétt eins og opinberir starfsmenn eða aðrir starfsmenn fyrirtækja sem fara til útlanda og borða á veitingastöðum, sem er ekki ódýr matur heldur, og fá dagpeninga á móti.

Ég sé ekki annað en þetta sé bara komið og það þarf ekki einu sinni að breyta lögum, frú forseti. Ég ætla að kanna það í efnahags- og skattanefnd hvort breyta þurfi lögum til að sjómenn geti fengið dagpeninga. Þá verð ég afskaplega sáttur vegna þess að þá eru sjómenn eins settir og allir hinir skattborgararnir. Það er það sem ég vil. Ég hef ekkert á móti sjómönnum, langt í frá, ég met þá mikils. Eini ókosturinn við sjómennsku er að allt of fáar konur eru á sjó, þær ættu að vera miklu fleiri. Ég skil ekki af hverju helmingur sjómanna er ekki konur. Þær eru ekki síður fisknar, það hefur sýnt sig í sportveiðinni, sumar eru lúsfisknar. Þær ættu ekki síður að geta aflað fisks en karlmenn.

Hér hefur dálítið verið talað um öryggismál. Það er sjálfgefið að sjómennskan er hættuleg og það sýnir kannski vanstillinguna í umræðunni að blanda öryggismálum í málið. Allir, hver einasti maður, útgerðarmenn sem sjómenn, vilja bæta öryggismál sjómanna. Ég man þegar ég var um borð að þetta var ekki beint hættulaust, þarna voru vírar syngjandi þvers og kruss í rigningunni og næturmyrkrinu og maður stóð beint fyrir framan skutrennuna og gat flogið fyrir borð eins og ekkert væri. Mikið var um slys um borð í skipum, allt of mikið. Ég skil ekkert í því að menn haldi ekki upp á árið 2008. Af hverju ættum við Íslendingar að halda upp á árið 2008? Það er fyrsta árið í Íslandssögunni sem enginn maður fórst á sjó, enginn einasti sjómaður fórst. Hér áður fyrr fóru heilu þorpin, allur rjóminn af karlmönnum fórst á sjó í aftakaveðrum sem fengu nafn eftir þeim sjómönnum eða bátum sem fórust. Í fyrsta skipti í Íslandssögunni árið 2008 fórst enginn sjómaður. Þessa finnst mér að við eigum að minnast, allir Íslendingar. Þetta var mjög gleðilegt. Því miður hefur ekki orðið framhald á því og við þurfum að vinna hart að því að þannig ár komi aftur og aftur og enginn farist á sjó. Stöðugt þarf að vinna að öryggismálum. Ég veit ekki um einn einasta mann, hvorki útgerðarmann né sjómann, sem ekki vill fá alla sína menn aftur heim. Það hef ég aldrei vitað. Það er dálítið undarlegt að blanda því inn í þessa umræðu af því að þar er markmiðið svo augljóst.

Mér sýnist á öllu að þetta frumvarp geti orðið kveikjan að ágætri umræðu í efnahags- og skattanefnd. Þar mun ég gauka þessari hugmynd að útgerðarmönnum, ef við fáum þá sem gesti, að þeir semji um að menn borgi fyrir káetuna sína og matinn svo sem eins og 10, 15 eða 20 þúsund á dag og fái launahækkun sem því nemur. Launin eru hækkuð, menn látnir borga og svo kemur skatturinn og samþykkir dagpeninga skattfrítt. Ég hef ekki reiknað það út en þá eru sjómenn sennilega töluvert mikið betur settir.