139. löggjafarþing — 65. fundur,  26. jan. 2011.

heilbrigðisþjónusta og málefni aldraðra.

214. mál
[17:45]
Horfa

Flm. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til breytinga á lögum um heilbrigðisþjónustu og lögum um málefni aldraðra. Ásamt mér eru flutningsmenn þessa frumvarps hv. þm. Þráinn Bertelsson, Lilja Mósesdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Þuríður Backman, Árni Þór Sigurðsson, Arndís Soffía Sigurðardóttir, Siv Friðleifsdóttir, Guðmundur Steingrímsson, Jónína Rós Guðmundsdóttir og Margrét Tryggvadóttir.

Frumvarpið er ekki stórt í sniðum en er stórt mannréttindamál. Hér er um að ræða að færa í lög að þeir sem velja að búa á hjúkrunarheimilum eigi kost á að búa einir í herbergi og að við bindum þann rétt fólks í lagakaflana um málefni aldraða og um heilbrigðisþjónustu.

Á Íslandi eru um þessar mundir ríflega 2.500 hjúkrunarrými og ríflega 540 dvalarrými. Þessum rýmum hefur fækkað jafnt og þétt undanfarin ár frá því að vera um 2.700 árið 2007, þ.e. hjúkrunarrýmin, og dvalarrýmin ríflega 700. Hlutfallslega hefur hjúkrunarrýmum fækkað um 6% en dvalarrýmum um ríflega 20%. Meðan þessi breyting hefur verið að ganga yfir hafa sveitarfélögin jafnt og þétt bætt í þá þjónustu sem aldraðir sem búa heima við geta fengið og einnig hefur dagvistarúrræðum fyrir eldra fólk verið fjölgað til muna.

Í dag er það þannig að a.m.k. 800 af þeim rýmum sem eru í boði fyrir fólk sem þarf á hjúkrunarrými að halda eru á fjölbýli, þ.e. þar búa fleiri en einn einstaklingur í herbergi. Við hönnun allra þeirra rýma sem hafa verið byggð undanfarin tíu ár hefur þess verið gætt að allir heimilismenn byggju einir í herbergi nema sérstakar óskir kæmu fram um annað. Þannig hafa heimilin í Sóltúni, í Boðaþingi og í Mörk á höfuðborgarsvæðinu verið byggð með þær þarfir í huga. Auk þess hefur hjúkrunarheimilum á seinni árum, til að mynda á Droplaugarstöðum í Reykjavík, verið breytt í þessa veru. Það sama hefur átt við um hönnun á hjúkrunarrýmum á landsbyggðinni á undanförnum árum. Þegar ný heimili hafa verið hönnuð, til að mynda í Fellsenda í Dalabyggð og á Jaðri í Ólafsvík, hefur þess verið gætt að þar væri einnig um einbýli að ræða.

Á undanförnum árum hafa bæði þingmenn og ráðherrar viðrað hugmyndir um að fjölbýli á hjúkrunarheimilum væru í raun úreltur kostur og þeim ætti að útrýma. Hæstv. forsætisráðherra og þáverandi félagsmálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, lagði meðal annars fram áætlun um fjölgun hjúkrunarrýma sem hafði þetta að leiðarljósi og félagsmálaráðherrar sem þá voru, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir og Árni Páll Árnason, hafa einnig á seinni stigum fylgt því máli eftir. Þingmenn hafa að auki margoft getið þess í þingræðum og í blaðaskrifum að mikilvægt sé að stíga þessi skref en einhverra hluta vegna hefur það ekki verið gert.

Rétt er að geta þess, frú forseti, að þegar rætt var um að breyta lögum um heilbrigðisþjónustu, sem var á árabilinu 2003–2007, ef ég man rétt, var lengi í drögum frumvarps til heilbrigðislaga á þeim tíma ákvæði um einbýli á hjúkrunarheimilum. Á síðari stigum málsins var því atriði vikið í burt og orðalagið var, við skulum segja, útvatnað á þann veg að réttur þeirra sem búa á hjúkrunarheimilum hvað þetta varðar er ekki tryggður. Samtök aldraðra hafa margoft ályktað um þetta efni og reist kröfur um að þeir sem kjósi að búa í einbýli eigi kost á því.

Sú þjónusta sem eldra fólki býðst í heimahúsum hefur verið að vaxa jafnt og þétt undanfarin ár og það er vel, vegna þess að við gerum ráð fyrir að það sé vilji flestra eldri einstaklinga, eins og allra annarra, að búa á heimili sínu, búa við sjálfstæði, búa við það að geta sjálft tekið ákvarðanir um flesta hluti og þess vegna hefur þessi þjónusta verið að aukast jafnt og þétt í heimahúsum. Það er mjög mikilvægt. Nú er til að mynda hægt hér á höfuðborgarsvæðinu að fá heimahjúkrun meira og minna allan sólarhringinn, í mismiklum mæli þó. Það er hægt að fá heimsendan mat, það er hægt að fá aðstoð við þrif o.s.frv. Allt eru það afar mikilvægir kostir sem hafa gert fólki kleift að búa lengur sjálfstætt án þess að þurfa að fara inn á stofnanir.

Þessi þróun mun halda áfram á næstu árum og er raunar byrjuð eins og gat um í upphafi máls míns, þ.e. að á síðustu þremur árum hefur orðið töluverð fækkun í hjúkrunarrýmum á landsvísu og er líklegt að sú þróun haldi áfram fyrst og fremst vegna bættrar þjónustu í heimahúsum. Því er það í raun andi frumvarpsins að nota tækifærið sem felst í því að þessi breyting er að verða í samfélaginu og útrýma smátt og smátt fjölbýlum. Það eru fleiri þættir en heimaþjónusta sem þarna hafa komið til, aukin áhersla á endurhæfingu eldra fólks hefur skipt miklu máli. Sú endurhæfing sem fer fram á Landspítalanum, á Landakoti, hjá Hrafnistu í Reykjavík, á Eir og fleiri stöðum, þar sem sérstaklega er lögð áhersla á endurhæfingu aldraðra, hefur gert það að verkum að fleiri og fleiri eldri einstaklingar fá nú bót meina sinna að svo miklu marki að þeir geta áfram búið heima hjá sér. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli og gerir meðal annars að verkum að þörfin fyrir hjúkrunarrými skapast síðar á æviskeiðinu.

Það liggur fyrir, frú forseti, að um næstu áramót er vilji til að flytja málaflokkinn um málefni aldraðra til sveitarfélaganna líkt og gert var með málefni fatlaðra um nýliðin áramót. Það er afar mikilvægt í mínum huga að áður en af þeim flutningi verður liggi fyrir vilji löggjafarvaldsins um það hvenær og hvernig staðið verði að því að tryggja þennan sjálfsagða rétt íbúa á dvalar- og hjúkrunarheimilum. Það verður óhjákvæmilega að taka þessa þætti inn í þegar kostnaður verður metinn og sú meðgjöf sem væntanlega mun fylgja málaflokknum til sveitarfélaganna. Það er nokkuð ljóst þar sem við vitum nú að eitt rými á hjúkrunarheimili kostar í rekstri ríflega 7 milljónir á ári en fyrir þá upphæð er líklega hægt að sinna, eftir þjónustuþörf vissulega, á bilinu 8 til 10 einstaklingum í heimahúsum. Þar á milli er alveg gríðarlega mikill munur. Þetta hefur vissulega áhrif á það með hvaða hætti sveitarfélögin taka við málaflokknum.

Í frumvarpinu segir, með leyfi forseta, í ákvæði til bráðabirgða:

„Stofnunum þar sem enn eru tvíbýli, sbr. 1. gr. laga þessara, skal á næstu 5 árum frá gildistöku laga þessara breyta með þeim hætti að fjölbýlum sé lokað en öll rými verði einbýli. Ráðherra velferðarmála skal innan árs frá gildistöku laga þessara leggja fram áætlun um með hvaða hætti fjölbýlum verði fækkað og loks útrýmt.“

Þetta er afar mikilvægt vegna þess að þarna er ekki um neina kollsteypu að ræða, frú forseti, heldur er verið að ræða um það að ráðherra þurfi að setja upp áætlun í samvinnu við þau hjúkrunarheimili sem eru í rekstri í dag og gera áætlanir um það hvernig unnið verði að þessu markmiði.

Ég tel því, frú forseti, að kostnaðurinn vegna þessara breytinga verði óverulegur. Við vitum að kostnaður vegna hjúkrunarheimilaþjónustu undanfarin ár hefur lækkað sem nemur þeim 6% sem rýmunum hefur fækkað og er það vel. Sú þróun mun vafalítið halda áfram og við eigum að nota svigrúmið til að fara í þessa vegferð.

Hér á landi er staðan enn þannig að hærra hlutfall íbúa þessa lands er búsett á hjúkrunarheimilum en í flestum öðrum vestrænum ríkjum. Í mínum huga þýðir það fyrst og fremst að við höfum verið full stofnanamiðuð í þjónustu við eldra fólk. Við eigum að reyna að snúa af þeirri braut og gera fólki kleift að þiggja þjónustuna á heimili sínu þar sem það vill að öllu jöfnu miklu fremur búa.

Frú forseti. Að mínu mati er hér um stórt mannréttindamál að ræða og við eigum að horfa til framtíðar með því að breyta á þennan veg. Ég geri ekki ráð fyrir að sú kynslóð sem ég er af, hvað þá kynslóð barnanna minna, sætti sig við það, þegar þau þurfa á umræddri þjónustu að halda, að búa með óskyldum eða fólki sér ókunnugu á hjúkrunarheimilum. Krafan mun verða æ háværari og með frumvarpinu er gefinn kostur á því, afar mildilega skulum við segja, að snúa frá þessari stefnu og tryggja mannréttindi eldra fólks.