140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

stefna í gjaldmiðilsmálum.

[12:21]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég hef ekki trú á því að við getum notað krónuna áfram. Hún á kannski best heima á Þjóðminjasafninu. En hvað kemur þá í staðinn?

Ég var með fyrirspurn hér á síðasta þingi um Maastricht-skilyrðin. Samkvæmt svari þáverandi efnahags- og viðskiptaráðherra var fyrsti möguleikinn á að taka upp evru hér árið 2019. Einn helsti gúrú Samfylkingarinnar, Vilhjálmur Þorsteinsson, hefur haldið því fram að raunhæft sé að taka upp evru mun fyrr og rökstyður þá skoðun með því að benda á nýjustu skýrslu AGS og skuldastöðu ríkissjóðs þar og hvernig það fellur saman við Maastricht-skilyrðin.

Við þingmenn Hreyfingarinnar áttum fund með fulltrúum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins núna fyrir skemmstu og spurðum Julie Kozack út í þessi mál. Hún taldi nú ekki að svo væri og að verið væri að horfa á vitlausar tölur í töflunni þótt svo sem væri horft á rétta töflu. Þessum fulltrúum AGS fannst trúlegt að við mundum uppfylla Maastricht-skilyrðin í fyrsta lagi á árunum 2020–2025.

Mér finnst líka líklegt að Maastricht-skilyrðin muni breytast og að þau muni herðast, að gerðar verði meiri kröfur til ríkja sem vilja taka upp evruna. Við getum ekki búið við krónuna þangað til, við verðum að skoða alla kosti og allar hugmyndir með opnum huga, sama frá hverjum það kemur. Ég ítreka að hvorki ný mynt né aðild að Evrópusambandinu er töfralausn, það sem skiptir mestu máli er að við verðum alltaf að bera ábyrgð sjálf og stjórna okkur sjálf.