140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíðarskipan fiskveiðistjórnar.

68. mál
[14:12]
Horfa

Flm. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Sú þingsályktunartillaga sem ég mæli hér fyrir er flutt af hv. þingmönnum Helga Hjörvar, Jónínu Rós Guðmundsdóttur, Oddnýju Harðardóttur, Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, Skúla Helgasyni, Valgerði Bjarnadóttur, Sigmundi Erni Rúnarssyni, Magnúsi Orra Schram og Lúðvík Geirssyni, auk mín. Hún felur í sér að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að undirbúa þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíðarskipan fiskveiðistjórnar þar sem bornar verði upp grundvallarspurningar, meðal annars um hvort taka eigi upp nýtt fiskveiðistjórnarkerfi, setja sérstakt stjórnarskrárákvæði um þjóðareign auðlindarinnar og innkalla aflaheimildir og endurúthluta þeim gegn gjaldi til þjóðarinnar.

Þessi tillaga var áður flutt á 139. löggjafarþingi og er nú flutt að nýju. Eitt og annað hefur borið til tíðinda frá því tillagan var lögð hér fram á haustdögum. Til að mynda hefur komið fram tillaga stjórnlagaráðs um nýtt auðlindaákvæði inn í stjórnarskrá sem rímar fyllilega við þau áform sem birt eru annars vegar í stjórnarsáttmála og hins vegar í þeirri vinnu sem að baki er við undirbúning að nýju fiskveiðistjórnarkerfi. Ýmislegt hefur líka átt sér stað hér í þinginu við átektir þess hvort og hvernig ganga eigi til verka varðandi breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu.

Það má rifja það upp í tilefni af þessu að í sáttmála stjórnarflokkanna er kveðið á um mikilvægi þess að standa vörð um sameign þjóðarinnar á náttúruauðlindum sínum. Þar er enn fremur kveðið á um breytingar á núverandi fiskveiðistjórnarkerfi að undangengnu samráði við hagsmunaaðila í sjávarútvegi.

Nú höfum við fengið niðurstöðu þess samráðs. Hún liggur fyrir í skýrslu starfshóps um endurskoðun laga um fiskveiðistjórn sem starfaði hér í um 18 mánaða skeið og skilaði af sér fyrir rúmu ári með því að afhenda skýrslu til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra haustið 2010. Á grundvelli þeirrar skýrslu lagði ráðherra fram frumvarp að breyttu fiskveiðistjórnarkerfi á síðasta löggjafarþingi en það mál var ekki útkljáð og frumvarpinu eiginlega vísað aftur til ráðuneytis nú síðastliðið haust.

Svo vitum við hvað hefur gerst síðan. Skipuð var sérstök ráðherranefnd til að leggja drög að smíði nýs frumvarps. Skipt var um ráðherra sem hefur uppi áform, yfirlýst áform, um að leggja fram nýtt frumvarp innan tíðar.

Skoðanakannanir undanfarin missiri á síðustu tveimur árum hafa sýnt ríkan vilja meðal þjóðarinnar til þess að það fyrirheit sem ríkisstjórnin gaf í upphafi vegferðar sinnar, um breytingar á kvótakerfinu, nái fram að ganga. Fá mál hafa þó orðið uppspretta harðari deilna undanfarin þrjú ár en þær fyrirhuguðu breytingar, svo það er brýnt að fá úr því skorið hver þjóðarviljinn er í þessu efni. Því væri kannski að mati flutningsmanna ráð að byrja á því að spyrja ákveðinna grundvallarspurninga.

Við vitum að umræðan nú síðustu mánuðina hefur svolítið einskorðast við það að arðurinn skuli renna til þjóðarinnar og menn hafa jafnvel ætlað að hlaupa í það skjólið, að því er virðist, að það muni nægja að skattleggja auðlindaarðinn og ná þar með inn tekjum af nýtingu auðlindarinnar. En með fullri virðingu fyrir þeirri kröfu, sem er auðvitað réttmæt, verður ekkert fram hjá því litið að það þarf líka að breyta kerfinu, því ein helsta meinsemdin, ein helsta orsök þess ósættis sem ríkt hefur um núverandi fiskveiðistjórnarkerfi frá upphafi, lýtur að kerfinu sjálfu og því ójafnræði, þeirri byggðaröskun og þeirri misskiptingu sem af því hefur hlotist. Við vitum að mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hefur kveðið upp úrskurð sem er þungur áfellisdómur og ber vitni um skort á virðingu fyrir jafnræðissjónarmiðum og atvinnufrelsissjónarmiðum í núverandi kerfi, og við vitum líka að hæstaréttardómar hafa fallið í sömu veru.

Þannig að við eigum ekkert val um það að við verðum að taka á þeim grundvallarspurningum. Í þeirri vinnu held ég að væru góð vinnubrögð að snúa sér til þjóðarinnar með spurningar um grundvallaratriði sem geta verið ráðgefandi fyrir stjórnvöld þegar niðurstaða liggur fyrir.

Markmið yfirlýstrar sjávarútvegsstefnu ríkisstjórnarinnar er að fiskveiðar umhverfis landið séu hagkvæmar og skapi verðmæti og störf en séu jafnframt sjálfbærar og vistvænar og í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar um verndun vistkerfa, lífríkis og hafsbotns. Ríkisstjórnin hefur markað þá stefnu að veiðiheimildir skuli ákvarðast af nýtingarstefnu sem byggist á aflareglu hverju sinni. Því er heitið í stjórnarsáttmálanum að með sérstöku ákvæði í stjórnarskrá verði undirstrikað að fiskstofnarnir umhverfis landið séu sameign þjóðarinnar í samræmi við það sem segir í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða frá 2006, að úthlutun veiðiheimilda myndi ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir heimildunum.

Þá er því einnig heitið í stjórnarsáttmála að brugðist verði frekar við því áliti sem ég nefndi áðan, áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna frá 24. október 2007, með því meðal annars að gæta atvinnufrelsis og tryggja að jafnræðis verði gætt við úthlutun afnotaréttarins og aðgengis að hinni sameiginlegu auðlind.

Við vitum að sjávarútvegurinn mun gegna lykilhlutverki, hann á að minnsta kosti að gera það, við þá endurreisn atvinnulífsins sem fram undan er. Sjaldan hefur þessi atvinnugrein þó staðið sterkar að vígi en einmitt núna, en það er auðvitað mjög mikilvægt að skapa þessari grein góð rekstrarskilyrði, þau bestu sem völ er á, og treysta þannig rekstrargrundvöllinn til langs tíma. Jafnframt verður að leita sátta við íslenska þjóð um stjórn fiskveiða eins og stjórnarsáttmálinn kveður á um. Meðal brýnna aðgerða sem þar eru tiltekin má nefna að takmarka framsal á aflaheimildum, auka veiðiskyldu og endurskoða tilfærslur á heimildum milli ára, stofna auðlindasjóð sem fari með ráðstöfun fiskveiðiréttinda í eigu þjóðarinnar og að arður af rekstri sjóðsins renni til atvinnuuppbyggingar.

Þetta er ekki síst mikilvægt í ljósi nýlegra tíðinda um olíufund á Drekasvæði og í ljósi ýmissa atvika sem upp hafa komið í umræðunni varðandi orkunýtingu okkar. Það má ekki dragast öllu lengur að stofnaður verði slíkur auðlindasjóður sem hafi annars vegar með úthlutun auðlindanýtingarinnar að gera og hins vegar ráðstöfun tekna þar af.

Svo að ég haldi áfram að vitna í stjórnarsáttmálann heitir hann því líka að lög um stjórn fiskveiða verði endurskoðuð í heild. Þar eru tiltekin sérstaklega nokkur markmið með þeim breytingum, þ.e. að stuðla að vernd fiskstofna, stuðla að hagkvæmri nýtingu auðlinda sjávar, treysta atvinnu, efla byggð í landinu, skapa sátt meðal þjóðarinnar um eignarhald og nýtingu auðlinda sjávar og leggja grunn að innköllun og endurráðstöfun aflaheimilda á 20 ára tímabili í samræmi við stefnu beggja flokka.

Af þeim markmiðum sem ég hef nú talið upp er alveg ljóst að samfélagslegar ástæður og samfélagsleg not af því kerfi sem hér þarf að byggja upp eru ekki síður veigamikil en krafan um arðsemi innan greinarinnar og hagkvæmni greinarinnar, þ.e. að treysta atvinnuna og efla byggð í landinu.

Flutningsmenn tillögunnar telja að ekki verði undan því vikist að efna fyrirheit stjórnarflokkanna um breytingar á fiskveiðistjórninni. Þó vitum við það auðvitað, í ljósi þess starfs sem unnið hefur verið og þeirrar viðleitni sem í gangi hefur verið undanfarin þrjú ár, að þær breytingar muni vart nást í fullri sátt við alla hagsmunaaðila, enda er það kannski ekki meginmarkmiðið, heldur að á komist samfélagsleg sátt um málið.

Flutningsmenn telja að full ástæða sé til að þjóðin fái að tjá hug sinn um þetta mikilvæga mál. Því er ríkisstjórninni með þessari þingsályktunartillögu falið að láta orða þær spurningar sem æskilegast er að þjóðin svari. Það er með öðrum orðum ekki verið að leggja til að lagafrumvarp verði lagt í þjóðaratkvæði, heldur að beinlínis verði búnar til stefnumarkandi spurningar sem geti verið vegvísir við lokahnykk vinnunnar.

Að svo mæltu, herra forseti, legg ég til að þessu máli verði vísað til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, því að þingsályktunartillagan sem slík fjallar ekki um fiskveiðistjórn heldur um þjóðaratkvæðagreiðslu.