141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

happdrætti.

477. mál
[16:57]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Alltaf verður þetta skringilegra og skringilegra. Ég ætla að halda áfram með spurningar mínar.

Fyrst það er svona skýrt af hálfu ráðherra að féð berist til íslenskra aðila, það er í sjálfu sér ekkert hægt að mótmæla því, þá spyr ég: Stenst það EES-samninginn, þrátt fyrir greinargerðina, að mismuna eftir þjóðerni með þessum hætti?

Í öðru lagi: Eru fordæmi annars staðar á Norðurlöndum varðandi þá mismunun er tengist þessu? Þá er ég sérstaklega að tala um greiðslumiðlunarbannið sem kemur þarna fram. Dugar það?

Í þriðja lagi, ég talaði um það áðan: Þetta er fyrsti áfanginn í greinargerðinni. Hver eru síðan næstu skrefin? Eru þau að fara að vilja ráðherra sem vill helst banna þetta allt saman? Er það lokaáfanginn? Það er sagt skýrum orðum „fyrsti áfangi“ í þessu frumvarpi.

Síðan vil ég fá á hreint: Er það ekki rétt skilið hjá mér, af því að þetta kostar 50 millj. kr. á ári, að sú upphæð verði tekin af þeim sem standa í þessari starfsemi sem þýðir 50 millj. kr. minna til SÍBS, DAS, Landsbjargar og þeirra sem standa að góðgerðarmálum? Þá færu sem sagt 50 millj. kr. minna til þeirra góðgerðastofnana sem hafa staðið undir ýmsum verkefnum í gegnum árin.