141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

happdrætti.

477. mál
[18:13]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Ég mundi gjarnan vilja fá nánari útlistun á því hvernig á að leysa þau vandamál sem ég hef bent á, því eitt er að segjast ætla að gera þetta eins og Noregur. Nú veit ég t.d. til þess að mörg sveitarfélög hafa lokað á allt sem heitir „pirate“, væntanlega út af The Pirate Bay, sem þýðir að lokað er á alla aðra sem nota þetta orð í sínum lénum, þó svo maður borgi fyrir þjónustu á bókasafni, einfaldlega út af því að þau ákváðu að láta Microsoft-umsýslukerfið sjá um þetta. Ég vil vara mjög við þessari leið, nema hún sé vandlega útfærð og gerð út frá stöðlum þeirra sem þekkja til og eiga heima á internetinu, en ekki einhverra sem ætla einmitt að græða á vanþekkingunni sem svo oft er til staðar í íslenskri stjórnsýslu þegar kemur að netinu.