141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

landslénið .is.

421. mál
[18:34]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Ég er með nokkrar spurningar til hæstv. innanríkisráðherra út af þessum lögum. Mér finnst dálítið bratt að það þurfi að vera tengsl við Ísland, að útlendingar verði að hafa áður tengsl við landið, áður en þeir skrá .is. Hvað ef maður flytur til Íslands? Hvað þarf maður að vera búinn að búa lengi hérna til þess að mega skrá lén?

Síðan er það séríslenskur lénaskattur upp á 3,5%. Mér finnst hann mjög furðulegur og ég bið ráðherrann að endurskoða þann þátt.

Svo langar mig líka að spyrja bara beint út í heimildarákvæði sem Póst- og fjarskiptastofnun fær til þess að hafa eftir atvikum eftirlit með starfsemi rétthafa .is, eins og segir í 15. gr. Ég spyr: Þýðir það að Póst- og fjarskiptastofnun á að hafa eftirlit með efni á vefmiðlum? Hvað á svo að gera ef efnið samræmist ekki skilgreiningunni .is laganna?

Mig langar að benda á ákveðin atriði sem ég tel mjög mikilvægt að hafa í huga. Það er margt mjög óskiljanlegt við þessi lög. Það er nefnilega ekki ljóst hvort þörf sé á þessari löggjöf. Talað er um í greinargerð að kvartanir hafi borist vegna ISNIC en ekki er tilgreint með neinum hætti hvert eðli þeirra kvartana hefur verið. Það er líklega erfitt að finna þann einkaaðila eða ríkisstofnun sem ekki hefur verið kvartað undan en þó hefur ekki verið brugðist við þeim kvörtunum með því að setja sérlög. Því langar mig að vita hvaða kvartanir það eru sem eru hvatinn að smíði þessara laga.

Í flestum tilfellum þar sem haldið er utan um auðlind á borð við þá sem ISNIC hefur umsjón með í dag væri eðlilegt að slíkt fyrirtæki væri í ríkisrekstri eins ISNIC var reyndar þar til það var einkavætt. Sú hugmynd er óskiljanleg að taka til baka áhrif einkavæðingarinnar með því að færa auðlindina undir stjórn Póst- og fjarskiptastofnunar og slíta hana þar með frá þeirri áratugareynslu sem byggst hefur upp innan ISNIC. Þá væri eðlilegra að þjóðnýta ISNIC á ný og láta þannig einkavæðinguna ganga til baka. Innan Póst- og fjarskiptastofnunar er ekki fyrir hendi nein reynsla á rekstri nafnþjónakerfa.

Ég tek ekki afstöðu sérstaklega með ISNIC í málinu en ég hef áhyggjur af ófyrirsjáanlegum afleiðingum þess að lagafyrirkomulag sem ekki er bilað, sérstaklega ef það er gert með því að fjarlægja alla reynslu og þekkingu úr ákvörðunartökuferlinu. Ég legg því til að frumvarpi í heild verði hafnað.