144. löggjafarþing — 65. fundur,  16. feb. 2015.

úthlutun byggðakvóta til ferðaþjónustuaðila.

[15:21]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mér þykir þetta vera svolítið innantómt svar í sjálfu sér. Hæstv. ráðherra hlýtur að vita hvort enn þá séu áætluð þessi 300 tonn til sjóstangaveiðiaðila eins og gert var ráð fyrir árið 2011 þegar þau lög sem ég vitnaði í voru sett. Hann hlýtur líka að hafa skoðun á því hvort það sé eðlilegt að ríkið styrki sérstaklega erlend sjóstangaveiðifyrirtæki sem starfa hér á landi, með fullri virðingu fyrir þeim og starfsemi þeirra. Auðvitað eiga þessi fyrirtæki að fá aflaheimildir, en það á ekki að taka þær frá þeim aðilum sem sérstaklega eru studdir með byggðakvóta vegna erfiðleika í viðkomandi sjávarplássi. Mér finnst þetta vera mál sem hæstv. ráðherra ætti að sýna áhuga á að taka upp hjá sér og kanna hvað þarna er á ferðinni og hvort ríkisvaldið eigi ekki að úthluta sérstökum aflaheimildum til þessarar starfsemi.