145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

457. mál
[14:40]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi þetta síðasta þá vil ég bara taka það sérstaklega fram að þessu 8.000 kr. skráningargjaldi er ekki ætlað að vera stórfelld tekjuöflun fyrir ríkissjóð heldur er það það gjald sem menn nota til að skrá sig til að koma þessum hlutum og þessari starfsemi upp á yfirborðið. En við lítum ekki á þetta sem stórfellda tekjuöflun.

Annað, sem ég kom ekki að í fyrra andsvari mínu, var varðandi skattlagningu á mismunandi gistingu, mismunandi leigutekjum og allt slíkt. Það er allt rétt, sem hv. þingmaður nefndi, og það er þess vegna sem vinnuhópur á vegum RSK er að skoða þessa hluti. Í þessu er ekki verið að fjalla um skattlagningarhlutann enda á það heima í öðrum lögum þannig að þeirri vinnu er vísað til ríkisskattstjóra.

Varðandi það sem þingmaðurinn nefndi um Katalóníu, að gera það að kröfu að menn séu á staðnum, þá er það akkúrat það sem við erum að breyta. Það mundi ekki ná utan um þessa starfsemi eins og hún er; deilihagkerfishugsunin er að ég leigi íbúðina mína til ferðamanna hér á meðan ég er ferðamaður annars staðar. Eða ég er í burtu og er ekki að nota eignina mína. Það var niðurstaða þessarar vinnu að þetta mundi ekki passa inn í þá hugsun sem við erum að færa fram hér.

Varðandi það hvort húsnæðið eigi líka að vera merkt númerinu þá hvet ég nefndina til að skoða það. Það er eitthvað sem við höfum ekki fjallað sérstaklega um. Ég mundi hvetja til að það yrði líka skoðað út frá öryggissjónarmiðum. Ef húsið þitt er merkt á áberandi hátt með slíku númeri gæti það haft þau áhrif (Forseti hringir.) að innbrotsþjófum þætti það vænlegra til innbrota þar sem húsráðendur væru ekki heima. Ég hvet nefndina til þess að slík sjónarmið skoða. En ég vildi árétta þessi atriði í þessu andsvari.