145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

457. mál
[14:59]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka ráðherranum svarið. Maður getur tekið dæmi úr nærumhverfi sínu, maður þekkir þessa hluti, og þetta með fasteignagjöldin skiptir gríðarlegu máli. Þetta er stór pakki sem fer kannski úr nokkrum tugum þúsunda í hundruð þúsunda þegar þú ert að borga fasteignagjöld miðað við að þú sért í rekstri. Þess vegna þykir mér það einmitt vont ef þetta eru geðþóttaákvarðanir eins og að einhverju leyti virðist hafa verið. Þess vegna hef ég líka áhyggjur.

Við vorum að tala um þessa 90 daga — þú getur alveg átt hús sem þú ert að leigja annað slagið yfir allt árið, einhverja daga í senn, eða nótt og nótt, þá getur það orðið til þess að menn telji að um sé að ræða atvinnustarfsemi, leyfi sér að túlka það þannig. Jafnvel þó að þú skráir þig inn með þeim hætti sem hér er lagt til, sem heimagistingaraðili, þá fara menn að hugsa: Bíddu, er hún búin að leigja meira en 90 daga eða er hún að leigja minna? Þetta er eitt af því sem ég tel að pínulítið erfitt verði að eiga við.

Skráningin á að ráða, mundi ég halda, ef maður skráir sig inn, nema hægt verði að færa haldbærar sönnur á að það sé á herðum sveitarfélaganna að sanna að viðkomandi sé að gera eitthvað annað en hann hefur skráð að hann væri að gera. Það er kannski eitthvert spil sem hægt er að setja út. Það þarf alla vega að tryggja þetta, finnst mér.