146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

nefnd um gjaldtöku í sjávarútvegi.

[15:22]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Frú forseti. Það eru þrír flokkar sem eru í ríkisstjórn og þeir eru ekki sammála um öll mál. Það er vitað og það var vitað fyrir kosningar og þannig gengu menn að kjörborðinu. Svo var ástandið þannig að ekki náðist að mynda aðrar ríkisstjórnir og menn mynda ríkisstjórn um ákveðin málefni, t.d. það að ætla að freista þess að setja þetta mál í sáttafarveg. Ég held að það séu fáir sem ímyndi sér að núverandi fiskveiðistjórnarkerfi, með þeirri gjaldtöku sem nú er, sé líklegt til að geta staðist til frambúðar.

Ég verð að segja eins og er að ég trúi því að allir flokkarnir, þar með talinn flokkur hv. þingmanns, gangi að þessu með einurð. En auðvitað er ekki sama einingin innan stjórnarflokkanna og er innan stjórnarandstöðunnar þar sem allir ganga í takt.